Man Utd goðsögnin Lee Sharpe frægasti meðspilarinn
Óli Stefán Flóventsson er kylfingur dagsins. Íþróttaunnendur munu örugglega ekki tengja hann við golf, heldur knattspyrnu en bæði lék Óli knattspyrnu í efstu deild á Íslandi og sem atvinnumaður í Noregi, og er starfandi knattspyrnuþjálfari í dag. Hann hefur undanfarin ár þjálfað lið Sindra á Hornafirði þar sem hann býr, hann fór með liðið úr 3. deild í 2. deild fyrir ári, en fór sömu leið til baka í sumar, hefur klárað samning sinn við Sinda og er óljóst með framhaldið. Óli er Grindvíkingur, sló þar sín fyrstu golfhögg og miðað við keppnismanninn sem var og er í honum sem knattspyrnumaður, skyldi engum koma á óvart að hann verði fljótur að lækka forgjöfina í golfi.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það? :
Ég byrjaði sem unglingur í Grindavík að slá. Mig minnir að það hafi nú verið í gegnum vin sem hafði mikinn áhuga á þessu. Ég fékk í kjölfarið bakteríuna og náði undirstöðuatriðum vel en af því að fótboltinn tók tímann þá minnkaði golfið og ég fór ekki nema einu sinni eða tvisvar á ári í golf. Það var svo ekki fyrr en svona þremur árum að ég fór á fullt í golfið aftur. Ég var ekki með forgjöf þá en byrjaði bara á fullu. Ég fann að ég bjó enn að undirstöðuatriðum frá unglingsárunum og bætti mig bara nokkuð stöðugt og hratt.
Helstu afrek í golfinu?
Ég held að aðal afrek mitt í þessu liggi í því að finna golfið aftur. Í dag finnst mér frábært að spila í góðum félagsskap en það er líka ótrúlega gaman að rölta einn með sjálfum sér.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Ég hef nú farið á nokkra frábæra golfvelli í ferðum mínum erlendis. Á Spáni spiluðum við fjórir félagar á Infinitum Lakes vellinum sem er mjög flottur völlur. Við fengum fylgd á fyrsta teig og ég veit ekki af hverju en því fylgdi mikil pressa hjá okkur. Þarna stóð einhver sérfræðingurinn og horfði á okkur slá fyrsu höggin á þessum glæsilega velli. Til að gera langa sögu stutta þá klikkuðum við allir á teighögginu þannig að kúlan fór ekki fram yfir næsta teig.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Ætli það sé ekki Manchester United goðsögnin Lee Sharpe. Ég verð að segja að hann er með þeim betri sem ég hef spilað með enda var hann nálægt núllinu í forgjöf ef ég man rétt.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei alls ekki.
Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?
Stutta spilið! Líklega er það af því að mér finnst miklu skemmtilegra að spila bara og er því minna í því að æfa. Þau fáu skipti sem ég gef mér tíma í að taka æfingar eins og að vippa 100 boltum inn á flöt þá fær maður strax betri tilfinningu fyrir stutta spilinu. Líklega þarf maður að gera aðeins meira af því ef maður ætlar að lækka forgjöfina eitthvað.
Aldur: 47 ára þangað til í desember
Klúbbur: Golfklúbbur Hornafjarðar
Forgjöf: 14,7
Uppáhaldsmatur: Lambakjöt með öllu tilheyrandi
Uppáhaldsdrykkur: Vatn
Uppáhaldskylfingur:
Hér á Íslandi er það Kristinn Justiniano Snjólfsson sem byrjaði í golfi 2019 en er núna kominn niður í fimm í forgjöf. Erlendis hefur Vijay Singh einhverra hluta vegna alltaf verið minn maður. Ég spilaði ekki mikið tölvuleiki þegar ég var yngri en þegar ég spilaði fannst mér Tiger golfleikurinn skemmtilegastur og þá var ég alltaf Vijay Singh. Mér finnst agalega gaman að horfa á golfið í sjónvarpi og af þeim sem ég sé spila í dag hugsa ég að Jon Rahm sé næst því að vera minn maður.
Þrír uppáhaldsgolfvellir:
Silfurnesvöllurinn á Höfn verður að vera númer eitt, Húsatóftavöllurinn í Grindavík númer tvö og Strandavöllurinn á Hellu þrjú. Þetta eru þeir golfvellir sem ég hef oftast spilað og þar með spilað mitt besta golf, ætli það hafi ekki eitthvað að segja í þessu. Ég á einn í miklu uppáhaldi erlendis en það er Infinitum - Hills völlurinn á Spáni. Hef spilað hann þrisvar og á örugglega eftir að fara hann mun oftar.
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi:
Tvær af mínum uppáhalds brautum eru hér á Silfurnesvelli. Braut 2 er stutt par 3 sem slegin er yfir sjávarvík, brautin getur orðið þinn versti óvinur eða besti vinur, það er nánast engin millivegur.
Braut 4 á Silfurnesvelli er par 5 braut sem getur verið krefjandi en mér líður alltaf vel á brautinni. Ég hef tekið örn þar og líklega hef ég hvergi fengið fleiri birde en á þeirri braut. Að lokum er það fjórða brautin á Húsatóftavelli sem er mjög tignarleg og skemmtileg braut. Hún er dogleg hægri par 4, hraun er hægra megin sem hefur mikil áhrif. Flötin er ofarlega í klettum sem gerir inná högg mjög krefjandi.
Erfiðasta golfholan:
Níunda hola á Silfurnesvelli hefur sálfræðileg tök á mér. Þar er slegið yfir vatn og inn á miðri braut er tjörn. Líkurnar á blautum, glötuðum bolta eru ansi háar hjá mér.
Erfiðasta höggið:
15-60 metra högg inn á flatir eru krefjandi högg fyrir mig.
Ég hlusta á: Fjölbreytta tónlist alla daga, eina til tvær hljóðbækur á viku og svo hlaðvörp tengd áhugamálum mínum þess á milli.
Besta skor: Á átján holum er það 76 högg á Selsvelli Flúðum, sem er sex yfir pari en á níu holum er það 37 högg.
Besti kylfingurinn: Af þeim sem ég þekki er það klárlega Halldór Birgisson en hann er héðan frá Hornafirði. Líklega ekki tilviljun að hann sé í landsliði 50 ára og eldri.
Golfpokinn
Callaway
Dræver: Taylor Made M2
Brautartré: Tailor Made M2
Járn: Taylor Made M2
Fleygjárn:
Pútter: Ping G Le3
Hanski:
Skór: Adidas