Hvernig slær Ragnhildur 240 metra með stóru kylfunni?
„Það sem ég geri í upphafshöggunum með „dræver“ er að slá eins fast og ég get og vona að boltinn fari langt,“ segir Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur sem segist mæta með eitt markmið í Íslandsmótið á Hvaleyrinni. Það sama og hún segist mæta með í öll mót; að sigra.
Ragga er högglengst á LET Access mótaröðinni þar sem hún hefur leikið á að undanförnu og hún segir það skipta meira máli að vera með lengra upphafshögg þó það sé ekki endilega á braut. Tölfræði sýni það líka. Hún varð Íslandsmeistari 2023 eftir að hafa verið með aðra hönd á titlinum alla vega í tvígang árin áður. Hún hefur náð frábærum árangri á LET Access mótaröðinni, þeirri næst sterkustu í Evrópu á þessu ári og á mjög góða möguleika á að tryggja sér þátttökurétt á LET Evrópumótaröðinni næsta tímabil.
„Þessi árangur hefur haft ótrúlega mikið að segja, sérstaklega upp á sjálfstraustið og eins að sjá að vinnan undanfarna mánuði hefur verið að skila sér. Ég hef verið að vinna í málum með Derek þjálfara mínum í sveiflu og tækni og svo andlegu hliðinni. Í sveiflunni snýst þetta ekki bara um „tímasetningu“ heldur líka að hugsa um flæðið í henni. Eins hef ég unnið mikið í andlegu hliðinni sem hefur oft verið erfitt fyrir fullkomnunarsinna eins og mig. Meðtaka mistök.
Sama hvernig leikurinn þinn er fyrir mót, þá skiptir mestu máli hvernig þú ert stilltur í höfðinu þegar þú mætir á 1. teig í keppni. Þetta var ekki fullkomin spilamennska í þessum tveimur mótum þar sem ég vann og varð í 2. sæti. Ég er búin að sýna sjálfri mér það að það þarf ekki allt að vera fullkomið. Ég tel mig hafa allan pakkann á mínum degi og stefni lengra,“ sagði Ragga en í innslaginu má sjá myndskeið af henni með stóru kylfuna en upphafshöggin hennar fljúga iðulega 240 metra. Það eru fáar konur sem slá svo langt.