Körfuboltakappi með golfdellu
Keflvíkingurinn Albert Óskarsson er heimsmeistari í þrípúttum að eigin sögn en þessi fyrrverandi körfuboltakappi er margfaldur Íslandsmeistari með bítlabæjarliðinu í körfubolta sem fékk viðurnefnið Keflavíkurhraðlestin þegar það var nær ósigrandi í mörg ár fyrir og eftir 1990. Alli segir afrekin fá eða engin á golfvellinum. Hann er samt lunkinn kylfingur, er duglegur að spila golf með frúnni og vinum, sérstaklega í Öndverðarnesi þar sem hann er félagi - en hann bíður eftir enn draumahögginu.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Ég byrjaði aðeins um 14 ára gamall. Æskuvinirnir voru að þvælast í þessu og ég hoppaði með. Svo tók ég 20 ára pásu, en eftir körfuboltann fór ég aftur að fikta við golfið og er enn að.
Helstu afrek í golfinu?
Það er nú lítið um það.
Hvað er neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Þau eru nokkur, en eitt stendur sérstaklega upp úr. Ég var að spila á Alicante Golf á Spáni með Guðjóni Skúla, Hrannari Hólm og Bjössa Bónda. Teigarnir voru frekar aftarlega, ég slæ, hitti boltann mjög illa – hann fer í gegnum golfbílinn, smellur í pissuskúrinn, upp í loft og endar fyrir aftan teiginn. Sem sagt, í mínus eftir fyrsta högg!
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Eyjapeyjinn Ásgeir Sigurvinsson.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei, ekki neitt.
Hefurðu farið holu í höggi?
Nei, en komist nokkrum sentimetrum frá því.
Hvað þarftu helst að bæta í þínum golfleik?
Púttin, ég er mögulega heimsmeistari í þrí-púttum.
MEIRA UM ALBERT KYLFING:
- Aldur: 57
 - Klúbbur: GKG, Öndverðarnes
 - Forgjöf: 13,1
 - Uppáhaldsmatur: Lambahryggur með öllu tilheyrandi
 - Uppáhaldsdrykkur: Kaffi og sódavatn
 - Uppáhaldskylfingur: Falur Harðarson, vinur minn – sá sem hefur oftar en flestir farið næstum því holu í höggi
 - Þrír uppáhaldsgolfvellir: Öndverðarnes, Vestmannaeyjar, Leiran
 - Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 16. braut á Öndverðanesi, 17. braut í Vestmannaeyjum, 1. braut á Brautarholti
 - Erfiðasta golfholan: Bergvík í Leirunni
 - Erfiðasta höggið: Upp úr bönker – nenni ekki að æfa það
 - Ég hlusta á: Litlu kallana á öxlinni sem hvísla að mér að reyna inn á af löngu færi með misgóðum árangri
 - Besta skor: 79 högg í Leirunni
 - Besti kylfingurinn: Tiger Woods
 
Golfpokinn
- Poki: Kahma.
 - Dræver: Titleist TSR2
 - Brautartré: Titleist TS2
 - Járn: Titleist T300
 - Fleygjárn: Vokey
 - Pútter: – Cobra
 - Hanski: TaylorMade
 - Skór: Ecco
 

Púttin hjá Alla: „Ég er mögulega heimsmeistari í þrí-púttum.“

Fyrsta brautin í Brautarholti er ein þriggja uppáhaldsholna Alberts.
	
			
					
						
						
						
						
						
						

				
				
				