Versti hringur Tigers frá upphafi
Tiger Woods gerði eitt sem hann hefur aldrei gert á Masters. Hann lék þriðja hringinn á 82 höggum. Þetta var í fjórða sinn í tæplega þrjátíu ára keppnissögu kappans sem hann leikur hring á yfir 80 höggum í risamóti og þetta var í fyrsta sinn sem hann gerir það á Augusta National. Tiger er næst sigursælasti kylfingurinn á Masters með fimm græna jakka, Jack Nicklaus hefur sigrað sex sinnum.
Tiger sagði að hann hafi ekki náð að hita nógu vel upp fyrir hringinn og hafi aldrei komist í réttan takt, hvorki í höggum eða púttum. „En ég verð klár í lokahringinn. Liðið mitt mun gera sitt til þess, ég mæti,“ sagði hann í viðtali eftir þennan slaka golfhring, einn þann versta í sögu hans.
Hann lék fyrri níu holurnar á 42 höggum, 6 yfir pari og fékk til að mynda tvöfaldan skolla á tveimur brautum í röð. Seinni níu holurnar voru lík erfiðar hjá þessum besta kylfingi sögunnar að flestra mati.
Tiger Woods begins his third round. Watch live. #themasters
— The Masters (@TheMasters) April 13, 2024