Fréttir

Kiðjabergsvöllur valinn besti völlur Íslands 2024
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 24. nóvember 2024 kl. 11:01

Kiðjabergsvöllur valinn besti völlur Íslands 2024

Kiðjabergsvöllur var útnefndur „Besti golfvöllur Íslands árið 2024“ af World Golf Awards en þetta er í í ellefta skipti sem þessi hátíð er haldin en hún er hluti af World Travel Awards™ sem var stofnað árið 1993 til að verðlauna  framúrskarandi árangur í öllum lykilgreinum ferða- og ferðaþjónustunnar. 

Alþjóðleg atkvæðagreiðsla hófst í byrjun hvers árs og lauk í byrjun október. Atkvæði voru greidd af fagfólki sem starfar innan golf- og ferðaiðnaðarins –  stjórnendum, ferðaskipuleggjendum, umboðsmönnum og fjölmiðlafólki. Almenningur gat einnig greitt atkvæði.

Útnefnt er í fjórum flokkum en auk besta golfvallarins eru útnefndar bestu golfferðaskrifstofur sem flytja inn gesti og út. Þá er hótel ársins á Íslandi valið. Golfskálinn var valinn í flokki ferðaskrifstofa sem flytja Íslendinga á aðrar golfslóðir en Iceland Luxury Expeditions hlaut verðlaun fyrir að standa fyrir golfferðum til Íslands. Hótel Grímsborgir hlaut verðlaun í flokki hótel- og gististaða.

Íslendingar hafa verið virkir þátttakendur í starfi World Golf Awards undanfarin ár. Árið 2023 var Urriðavöllur valinn besti völlurinn og þá hafa Vestmannaeyjavöllurinn og Hvaleyri fengið útnefningu á síðustu árum. Í flokki golfferðaskrifstofa sem bjóða golfferðir til útlanda frá Íslandi var Úrval Útsýn valin 2023 en tvö ár þar á undan var VITA-Golf fyrir valinu.

World Golf Awards verðlaunahátíðin er haldin í mismunandi löndum ár hvert en í ár en nú var hún haldin í Madeira þann 22. nóvember.

„Útnefningin er mikil viðurkenning fyrir Golfklúbb Kiðjabergs og allan þá metnað og vinnu sem hefur verið lögð í golfvöllinn af stjórn, starfsmönnum og sjálfboðaliðum í gegnum árin. Golfklúbbur Kiðjabergs þakkar öllum þeim sem hafa aðstoðað við að gera golfvöllinn að því sem hann er í dag. Án þeirra hefði ekki hlotnast þessi heiður,“ segir á Facebooksíðu klúbbsins.

Guðmundur Ásgeirsson, formaður GKB, tók við viðurkenningu World Golf Awards fyrir hönd Golfklúbbs Kiðjabergs og var eiginkona hans, Jónína Magnúsdóttir, með í för.