„Fer í reynslubankann“ - Dagbjartur í fyrsta skipti í úrtökumótum
„Það var mjög svekkjandi að komast ekki áfram inná lokastigið. Það er stutt á milli þegar maður er kominn á þetta stig og hvert einasta högg skiptir miklu máli. Þetta gekk ágætlega en það þurfti meira til að komast á lokastigið og ég held bara áfram að bæta minn leik,“ sagði Dagbjartur Sigurbrandssson, Íslandsmeistari í golfi 2025 en hann reyndi fyrir sér í úrtökumótum í fyrsta sinn í haust og komst á 2. stig en vantaði síðan herslumuninn til að komast alla leið í lokamótið þar sem 25 efstu vinna sér þátttökurétt á DP World mótaröðina 2026.
„Nú tekur við smá frí eftir langt keppnistímabil. Ég mun fara yfir hlutina með teyminu mínu, gera upp tímabilið og setja saman plan fyrir næsta ár — skoða hvað við gekk vel og hvað er hægt að bæta.“
Hvernig var þessi reynsla?
„Þetta var mjög góð reynsla og reynslubankinn heldur áfram að stækka. Ég á algjörlega heima þarna og það er gaman að keppa við sterka leikmenn. Ég tek margt jákvætt úr mótinu og ætla að halda áfram að byggja ofan á það. Þetta var margt gott og ég er ánægður með spilamennskuna síðustu mánuði. Maður vill alltaf gera vel, þetta er mikil vinna og æfingar sem fara í undirbúninginn.“
Er eitthvað sérstakt sem þú tókst með þér út úr þessu, eitthvað sérstakt t.d. sem þú telur þig þurfa að bæta í þínum leik?
„Það er alltaf hægt að finna högg hér. Upphafshöggin af teig hefðu mátt vera aðeins betri og svo voru flatirnar litlar og krefjandi þegar maður missir þær.“
Varstu með eitthvað sérstakt leikplan fyrir þetta mót?
„Ég fór vel yfir leikskipulagið með Simma fyrir mótið og skoðaði bestu möguleikana fyrir mitt golf. Einfalt er best. Hitta flestar brautir og grflatir er alltaf best. Skollar kosta mikið á þessu stigi, ég tala nú ekki um ef þú færð meira en það og það er oftast sem sker út úr.
Hvað með taugarnar?
„Taugarnar voru mjög góðar heild yfir og náði að halda mér rólegum alla hringina. Auðvitað er spenna og fann það mest á síðasta degi.“
Lokastaðan hjá Dagbjarti á 2. stiginu á Desert Springs vellinum á Spáni.

