Fréttir

Veðurguðirnir í aðalhlutverki í St. Andrews - 26 ár frá vallarmeti Arnar Ævars
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 7. júní 2024 kl. 21:22

Veðurguðirnir í aðalhlutverki í St. Andrews - 26 ár frá vallarmeti Arnar Ævars

Veðurguðirnir höfðu áhrif á skorið á Links Trophy áhugamannamótinu í St. Andrews í Skotlandi þar sem tveir Íslendingar eru við leik. Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG og Logi Sigurðsson úr GS eru í 74. og 121. sæti eftir fyrsta daginn á mótinu. Árið 1998 lék Örn Ævar Hjartarson úr GS á þessu móti og setti vallarmet á Nýja vellinum þegar hann lék á 60 höggum. Það er lægsta skor allra vallarmeta í St. Andrews. 

Íslensku strákarnir áttu teigtíma eftir kl. 14 í dag en eftir hádegi fauk í veðurguðina og aðstæður voru mjög erfiðar þegar okkar menn léku. Sigurður Sigurðsson, faðir Loga var á pokanum hjá syni sínum og sendi okkur þessar línur:

„Dagurinn var erfiður hjá okkar mönnum,  þeir fóru seint út og það bætti vel í vindinn eftir hádegi,  vindhraðinn fór uppí 13-14 metra og var það síðustu 12 holurnar,  margt gott hjá þeim,  en virkilega erfitt að hemja boltann á flötunum,  týndur bolti hjá Loga og +3 á einni holunni, þeir eiga teig um 10 í fyrramálið og ætla að gera miklu betur. Langflest bestu skorin komu um morguninn,  þannig að núna er bara áfram gakk.“

Eftir morgundaginn er niðurskurður og því þurfa íslensku strákarnir að eiga góðan dag. Aðeins fjórtán af 144 kylfingum léku undir pari á Nýja vellinum í St. Andrews.

Gunnlaugur og Logi í klúbbhúsinu í St. Andrews með skráð vallarmet í St. Andrews á veggnum fyrir aftan sig. Suðurnesjakylfingurinn Örn Ævar Hjartarson setti vallarmet á Nýja vellinum (New course) þegar hann lék í þessu mótinu fyrir aldarfjórðungi en þá lék hann á 11 undir pari, 60 höggum.

Rætt var við Örn Ævar á kylfingur.is árið 2010 um afrek hans en hann fékk níu fugla, einn örn og átta pör á hringnum. „Ég hef ekki spilað á vellinum síðan þetta gerðist en ég hef komið til St.Andrews tvisvar og spilað þarna í kring. En þessir níu fuglar, örn og átta pör munu lifa alla tíð með mér og vonandi þeim sem eru í kringum mig og þekkja til mín,“ sagði Örn Ævar við Kylfing.is en hér má lesa lengra viðtal og lýsingu á þessum ótrúlega hring kappans.