Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Vann í fyrsta sinn á PGA með pabba á pokanum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 2. júní 2024 kl. 23:04

Vann í fyrsta sinn á PGA með pabba á pokanum

Skotinn Robert Macintyre sigraði á Opna kanadíska mótinu á PGA mótaröðinni á sínu fyrsta ári á mótaröðinni. Bob var með Dougie föður sinn á pokanum en sá gamli starfar sem vallarstjóri á golfvelli í Skotlandi. Ekki nóg með það heldur kenndi pabbinn drengnum golf.

Macintyre var með fjögurra högga forskot fyrir lokahringinn á Bandaríkamanninn Ben Griffin. Bob lék geysilega vel í mótinu en byrjaði lokahringinn á skolla en rétti síðan sinn hlut. Griffin lék hins vegar enn betra golf og sótti að Skotanum undir lokin þannig að einungis munaði höggi á þeim þegar þeir komu að lokabrautinni. Þar sýndi Ryderleikmaðurinn Macintyre úr hverju hann er gerður og átti frábært innáhögg og síðan tvö pútt til að sigra.

Skotinn átti erfitt með að leyna tilfinningum sínum í lokin og grét með föður sinn við hlið sem hann fékk til að koma á pokann fyrir þetta mót. Strákur hafði fyrr á árinu kvartað yfir heimþrá og því var tilvalið að fá gamla til Kanada á pokann. Það skilaði sér svo sannarlega. Þeir feðgar náðu vel saman en sá gamli er samt á leiðinni heim í sína vinnu og verður ekki kylfusveinn í næstu mótum sonarins sem eru Memorial og Opna bandaríska mótið.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Þriðji á mótinu var Frakkinn Victor Perez, aðeins tveimur höggum á eftir Bob. Aðeins þremur höggum á eftir var tvöfaldur sigurvegari á mótinu, N-Írinn Rory Mcilroy.

Lokastaðan.

Hér að neðan má sjá það besta frá Bob á þriðja keppnisdegi þegar hann náði forystu í mótinu sem hann svo lét ekki eftir. Hann lék síðustu fimm holurnar á fimm undir pari.