Valkyrjur láta gamminn geysa í golfhermum GKG
„Við reynum að velja sem fjölbreyttasta velli, passlega erfiða þannig að það þurfi að hugsa um hvert einasta högg,“ segja Valkyrjur sem er 12-14 manna hópur GKG kvenna sem var stofnaður sumarið 2019 í kringum liðakeppni GKG en það er misjafnt á milli ára og verkefna hve margar þeirra eru virkar. Flestar voru þær búnar að spila reglulega saman í klúbbnum fyrir stofnun formlegs hóps og í golfhermum GKG frá hausti 2018. Á sumrin er stóra verkefni Valkyrja að keppa í liðakeppni GKG og að spila Leirdalinn saman einu sinni í viku og þar sem félagsskapurinn er svo góður, eru þær duglegar að spila saman yfir veturinn í golfhermum GKG.
Eftir golfsumarið hefja Valkyrjur golfhermatímabilið vanalega um miðjan október, hittast í GKG á kvöldin annan hvern mánudag og spila saman í tvo og hálfan tíma. Þennan veturinn eru þær með fjóra herma á þessum kvöldum og mæta tíu til tólf dömur í hvert skipti. Ein til tvær Valkyrjur halda utan um praktísk mál í kringum golfhermana hvern vetur en þær koma allar með hugmyndir um velli til að spila, þær reyna að velja þá sem henta öllum og hafa þá sem fjölbreyttasta, ekki of erfiða en heldur ekki of létta. Passlega erfiðir vellir eru skemmtilegir að mati Valkyrja og krefjast þess að það þurfi að hugsa um hvert einasta högg. Þær eru með alla anga úti við að finna spennandi leiksvæði fyrir kvöldið, stundum er land ákveðið og fundinn völlur sem þær telja álitlegan og það getur verið hvar sem er í heiminum. Svo eiga þær til að detta í þemastuð, á einu hermakvöldinu voru þær til að mynda fallega bleikar í stíl við Bleiku Slaufuna og tóku sig mjög flott út með kylfurnar þannig. Það er alveg öruggt að Valkyrjur eiga eftir að stinga upp á fleiri þemum áður en þessum vetri lýkur enda er það ákaflega skemmtilegt uppbrot inn í gott hermakvöld.
Keppnisharka!
Valkyrjur taka eitt golfhermakvöld í einu, eru ekki með verðlaun heldur hugsa þetta meira sem hitting og að skemmta sér saman. Fyrirkomulagið sem þær notast við er punktakeppni og er yfirleitt keppt í einstaklingskeppni. Það vantar ekki í þær keppnisskapið og í einum hittinginum náðu til dæmis þrjár Valkyrjur sér í yfir 40 punkta. Meistari þess kvölds var Regína með hvorki meira né minna en 48 punkta. Þetta kvöld var Sutton Bay í henni Ameríku spilaður og fannst þeim mjög gaman að spila þann völl, það var lítið um sand en allskonar aðrar áskoranir sem mættu þeim í staðinn.
Það eru margir kostir við að hittast í golfhermum GKG að vetri til; þær viðhalda tengslunum við golfvinkonurnar, viðhalda sveiflunni, hitta aðra GKG-inga, stytta veturinn og þeim finnst notalegt að hittast og hafa gaman saman. Þær hlakka allar mikið til þess að mæta í hvert sinn, svo mikið að Valkyrja sem missir af tíma dettur í 5 mínútna fýlu en byrjar svo að hlakka til næsta hermakvölds.