Þriggja stiga skyttan bílastæðavörður í Leiru
„Það er gaman að gegna mikilvægu sjálfboðastarfi hér í Leirunni,“ sagði Guðjón Skúlason, fyrrverandi körfuboltahetja úr Keflavík en hann tók á móti gestum á leið á Íslandsmót í Leiru við gatnamótin að golfvellinum og golfskálanum með bros á vor.
Vegna fjölda bíla og þátttakenda á mótinu þurfti að gera ráðstafanir til að stýra bílaumferð. Einungis er pláss fyrir bíla keppenda og því ekki hægt að hleypa öllum bílum á bílastæðinð við golfskálann. Hefur því verið útbúið pláss fyrir bíla við hringtorgið að Garði og Sandgerði. Þaðan ferjar bíll gesti Íslandsmótsins að og frá golfvellinum.
Þegar blaðamaður smellti mynd af þriggja stiga skyttunni frægu var hann að taka á móti Friðjóni Einarssyni, fyrrverandi formanni Golfklúbbs Suðurnesja og Samúel Kára syni hans og atvinnumanni í knattspyrnu. Friðjón var farþegi í bílnum og fór út úr honum að golfsvæðinu en Samúel Kári keyrði til baka á bílastæðið við hringtorgið en þaðan fékk hann far á golfsvæðið.