Þriðji japanski sigurinn á sjö mánuðum
Japanskir kylfingar hafa látið til sín taka á sterkustu mótaröðinni í Evrópu, DP World tour en Keita Nakajima sigraði á Hero Indian mótinu í Nýju Delí í Indlandi um síðustu helgi.
Þessi japanski kylfingur var efstur á heimslista áhugamanna í nærri tvö ár áður en hann sneri sér að atvinnnumennsku árið 2022. Þetta var aðeins hans ellefta mót á DP röðinni. Þegar níu holur voru eftir af mótinu benti fátt til annars en að hann kláraði mótið með stæl því hann var með níu högga forskot þegar tíu holur voru eftir. En mjög slakur lokakafli setti þetta forskot í smá hættu en hann kláraði þó með fjögurra högga mun á næsta mann. Einn tvöfaldur skolli á 14. holu og þrír skollar á síðustu þremur holunum gerðu það að verkum að sigurinn var ekki alveg eins stór og stefndi í.
Bandaríkjamaðurinn Johannes Veerman og Sebastian Söderberg frá Svíþjóð deildu öðru sætinu. Matteo Manassero frá Ítalíu varð fjórði en við sögðum frá fyrsta sigri hans á DP móti í mörg ár nýlega.
Every shot of Keita Nakajima's amazing birdie at the sixth! 🤩#HIO24 pic.twitter.com/SuU3IE8h8Y