Sigurbjörn stóð sig vel á Opna spænska
„Þetta var skemmtilegt og mér gekk bara ágætlega. Síðasta daginn byrjaði ég mjög vel en missti flugið á síðustu sex holunum þegar ég fékk tvær slæmar „sprengjur“, segir Sigurbjörn Þorgeirsson en hann tók þátt í Opna spænska mótinu fyrir eldri kylfinga á Spáni nýlega.
Mótið var haldið á hinum frábæra Real Sevilla Golf við borgina Sevilla á suðvestur hluta Spánar. Þetta er einn af bestu völlum Spánar og Evrópu. „Og vá, ég varð ekki fyrir vonbrigðum, einn sá flottasti sem maður hefur spilað, í öllu sagt stórkostlegur,“ segir Sigurbjörn.
Mótið var tvískipt, annars vegar tvímenningur og síðan einstaklingskeppni
Á þessum móti er spilaður tvímenningur fyrstu tvo dagana, tveir saman í liði, betri bolti fyrri daginn og fjórmenningur seinni daginn.
Okkar maður lék í tvímenningi með Finnanum Jari Puurtinen en þeir eru ágætir vinir. Þeir stóðu sig ágætlega og enduðu jafnir í 12. sæti af 54.
Einstaklingskeppnin er síðan haldin strax í kjölfarið, 108 komast inn, þrír dagar, niðurskurður eftir tvo þar sem 60 komast áfram. Það er valið inn í mótið eftir forgjöf, þeir lægstu er valdir fyrst (Sigurbjörn er með forgj. +0,7) og var á biðlista áður en ég hélt utan.
„Tveim dögum áður en einstaklingskeppnin hófst þá datt ég inn í mótið vegna forfalla. Ég fór létt í gegnum niðurskurðinn, var á +3 en sá besti var á -4. Síðasta daginn var ég á -2 eftir 12 holur en þá kikkaði inn „vetrarhrollurinn“ og ég fékk eitt „double“ og eitt „triple“. Endaði hringinn á +4. Ég datt aðeins niður töfluna og endaði jafn í 33. sæti. Vissulega svekkjandi en að sama skapi kannski ekki hægt að ætlast til mikilla afreka þar sem hávetur er hjá okkur og maður er miklu meira á skíðum en með golfkylfu í hönd,“ sagði Ólafsfirðingurinn snjalli.