Fréttir

Palla open stækkar og stækkar
Þriðjudagur 28. maí 2024 kl. 17:04

Palla open stækkar og stækkar

Páll Líndal er áhugakylfingur eins og við flest en ekki hafa flestir náð að festa í sessi styrktarmót í eigin nafni. Palla open verður haldið í fjórða sinn 8. júní á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar en mótinu hefur vaxið fiskur um hrygg allar götur síðan það var fyrst haldið árið 2021. Ágóðinn í ár heldur áfram að renna til uppbyggingar aðstöðu hjá Reykjadal, sem er sumarbúðir fyrir fötluð börn.

Palli var ekki með markmið að setja á stofn styrktarmót í eigin nafni þegar hann fékk hugmynd fyrir nokkrum árum.

„Það var Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar (GM) sem kom með þessa hugmynd við mig fyrir fjórum árum og afmælið mitt var framundan nokkrum dögum síðar, n.t. 22. maí. Ég var bara nýlega byrjaður í golfi og allt í einu var búið að blása til golfmóts sem varð að styrktarmóti. Það voru 161 í mótinu þá sem er og verður alltaf opið en flestir þátttakendanna þá voru í GM. Þetta var tvöfalt Texas-mót og góð stemning. Það safnaðist 1,5 milljón og rann til Reykjadals- og Hlaðgerðarkots, sem er meðferðarheimili fyrir konur sem lent hafa í heimilsofbeldi. Það kostaði sjö þúsund krónur í mótið og ég sótti líka styrki til fyrirtækja og einstaklinga, þetta tókst mjög vel og var ekki um annað að ræða en endurtaka leikinn ári seinna. Ári seinna styrktum við bara Reykjadal og vildum gera þetta öðruvísi þá, ekki bara afhenda pening heldur safna fyrir einhverju sem vantaði. Við söfnuðum 2,7 milljónum og keyptum þrjá útivistarhjólastóla. Í fyrra vantaði aðstöðu fyrir einstaklinga með sérþarfir, það mættu 244 kylfingar og við söfnuðum 3,5 milljónum og það verkefni heldur áfram núna, þetta er dýr framkvæmd svo söfnunin í ár rennur í það sama. Ekki bara að það safnist fjármunir, heldur er ég búinn að vera í sambandi við verktaka sem eru að vinna verkið og þeir munu gefa góðan afslátt og auðvitað er það fjármunir líka. Þessi framkvæmd er metin á 12-15 milljónir og vonandi tekst að fara langt með söfnunina í ár.“

Palla open komið til að vera

Palla open er búið að festa sig í sessi en Palli er ekki viss um að stýra því alltaf, frekar að GM taki við mótinu. 

„Þetta er búið að vera skemmtilegt og gaman að sjá hvað mótið hefur vaxið og dafnað, ég átti alls ekki von á þessu þegar Ágúst kom með þessa hugmynd fyrir þessum fjórum árum. Það er gefandi að taka þátt í að safna svona fjármunum sem maður veit að rennur í þarft og gott málefni, þetta snýst nefnilega um málefnið en ekki mig og hvort sem þetta mót muni alltaf heita Palla open er aukaatriði. Ég hlakka til að mæta í mótið í ár og eigum við ekki að segja að maður stefni á sigur,“ sagði Palli að lokum.