Nýtt vökvunarkerfi á Garðavelli á Akranesi
„Í þessum fyrsta áfanga eru fjórða, áttunda og ellefta hola tilbúnar í sjálfvirka vökvun,“ segir Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Leynis en klúbburinn hefur hafið sjálfvirka vökvun á vellinum. Vinnudagar sjálfboðaliða eru í gangi þessa dagana, búið er að gera nýja samninga og endurnýja við helstu styrktaraðila og greinilegt að ferskir vindar blása á Akranesi.
Rakel hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra síðan 2020.
„Við hófum þetta ferli í fyrra má segja þegar við fjárfestum í stofnbúnaðinum, það eru dælur, lagnir o.fl. Það var grafið fyrir lögnunum fyrir stuttu og í þessum fyrsta áfanga verða holur fjögur, átta og ellefu tilbúnar fyrir sjálfvirka vökvun. Við bætum svo við á næsta ári en hvenær allar holurnar verða tilbúnar ætla ég engu að lofa til um núna en markmiðið er klárlega að leggja þetta út um allan völl. Við höfum líka verið að draga rafmagn á efri völlinn, þ.e. holu fjórtán til sautján, það mun hjálpa til þegar kemur að vökvunarfasanum.
Við byrjuðum með slátturróbóta í fyrra og vorum að fjárfesta í einum til viðbótar en hann er mun öflugri en þeir þrír sem við vorum komin með. Þetta er klárlega það sem koma skal, slátturinn verður mjög fallegur finnst mér, áferðin verður öðruvísi. Við höfum látið róbótana sjá um röffið og hefur það gefið góða raun. Þetta vakti mikla athygli hjá okkur í fyrra og við munum bæta við hægt og örugglega en við vorum líka að fjárfesta í nýrri grínsláttuvél, að sjálfsögðu rafmagns eins og nútímavæðingin kallar á.
Það hefur gengið vel að endurnýja og gera nýja styrktarsamninga við frábær fyrirtæki og ég myndi segja að ferskir vindar blási hjá okkur á Akranesi. Það er mikið í gangi hjá okkur, sumarið lítið vel út og við hlökkum til að taka á móti kylfingum í sumar. Sjálfboðaliðar hafa verið að ditta að ýmsu við völlinn að undanförnu, voru að bera á æfingaskýli og útiklósett, snyrta til við golfskála, göngustíga, kurla tré og greinar eftir grisjun vetrarins. Við erum með annan vinnudag á morgun, laugardag og vonumst auðvitað eftir að sjá sem flesta.
Við stefnum á að opna völlinn félagsmönnum í byrjun maí. Völlurinn er alltaf viðkvæmur á þessum árstíma og enn er eitthvað frost í jörðu. Spáin næstu daga er okkur þó hliðholl og það er von okkar að fljótlega geti félagsmenn farið að spila Garðavöll en endanleg ákvörðun um opnunartíma verður tekin í lok apríl,“ sagði Rakel að lokum.