Fréttir

Nautalund og sushi í meistarakvöldverði í Leiru
Tuttugu og þrír Íslandsmeistarar saman komnir fyrir meistarakvöldverð. kylfingur.is/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 16. júlí 2024 kl. 23:14

Nautalund og sushi í meistarakvöldverði í Leiru

Ragnhildur Kristinsdóttir og Logi Sigurðsson, Íslandsmeistarar 2023 völdu þriggja rétta kvöldverð en Golfklúbbur Suðurnesja bauð fyrrverandi Íslandsmeisturum í golfi í meistarakvöldverð í golfskálanum í Leiru á mánudagskvöld í Íslandsmótsviku.

Sveinn Björnsson, formaður GS sagði á fjölmiðlafundi fyrr um daginn að þetta væri ein af nýjungum sem klúbburinn byði upp á fyrir þetta Íslandsmót. „Þessi hugmynd kom upp hjá okkur og hún er áhugaverð og skemmtileg og við ákváðum að láta hana verða að veruleika. Vonandi taka næstu klúbbar með Íslandsmótið við boltanum og halda áfram með þessa hefð.“

Tuttugu og þrír fyrrverandi Íslandsmeistarar þáðu boð Golfklúbbs Suðurnesja. Þessir meistarar eiga sameiginlega nærri sextíu Íslandsmeistaratitla. Í hópnum voru m.a. mæðgurnar Karen Sævarsdóttir, áttfaldur meistari og móðir hennar, Guðfinna Sigurþórsdóttir, fyrsti Íslandsmeistari kvenna en hún vann þrisvar sinnum. Þarna var líka Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur meistari karla og Úlfar Jónsson sem hefur unnið sex sinnum. Allir Íslandsmeistarar Golfklúbbs Suðurnesja að Þorbirni Kjærbo undanskildum en hann lést fyrr á árinu, mættu í meistarakvöldverðinn, en auk mæðgnanna voru þeir Gylfi Kristinsson, Örn Ævar Hjartarson og feðgarnir Sigurður Sigurðsson og Logi Sigurðsson. Það er sérstakt við Íslandsmeistarasögu þeirra er að þrír fyrstnefndu sigruðu allir í Grafarholti en einn titill Þorbjörns Kjærbo kom líka þar. Logi vann í fyrra á Urriðavelli.

Þau Ragnhildur og Logi völdu m.a. sushi og djúpsteikta rækju í forrétt, nautalund og meðlæti í aðalrétt og svo var terta og ís í eftirrétt.

Íslandsmeistararnir nutu sín vel í meistarakvöldverðinum, rifjuðu upp margar sögur og höfðu gaman. Í þessum hópi voru nokkrir af yngri Íslandsmeisturunum en þeir verða í eldlínunni um helgina.

Logi og Ragnhildur, Íslandsmeistarar 2023, kynntu matseðil kvöldsins.