Loksins sigur eftir ellefu ára bið
Ítalinn Matteo Manassero sigraði á móti helgarinnar á DP mótaröðinni í S-Afríku en síðasti sigur hans kom fyrir 3900 dögum síðan, tæpum ellefu árum. Hann var ein mesta vonarstjarnan í heimi atvinnukylfinga þegar hann sigraði aðeins 17 ára gamall í fyrsta skipti á Evrópsku mótaröðinni árið 2010.
Manassero lék þriðja hringinn á móti helgarinnar á 61 höggi og komst í forystu. Hann hélt síðan haus og rúmlega það á lokadeginum og sigraði með stæl því hann fékk fugla á síðustu fjórar holurnar. Langri bið unga kappans eftir að komast aftur meðal sigurvegara er lokið.
Manassero var á hraðri uppleið eftir fyrsta sigurinn 2010. Hann bætti við þremur sigrum á næstu þremur árum og var í miklu stuði. Var yngsti kylfingurinn til að sigra þrisvar á Evrópsku mótaröðinni áður en hann varð tvítugur. Hann flaug hátt. En árið 2015 fór að halla undan fæti hjá kappanum og hann tapaði þátttökurétti á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. En hann er kominn aftur strákurinn frá Ítalíu en hann vann sér þátttökurétt á DP mótaröðinni (DP World Tour) eftir góðan árangur á Áskorendamótaröðinni á síðasta ári. Þar hafa okkar bestu kylfingar á Íslandi, þeir Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst Kristjánsson verið að keppa undanfarin ár, Guðmundur var reyndar á DP mótaröðinni allt síðasta ár en missti þátttökuréttinn í lok árs.
„Þetta er án efa besti dagur lífs míns á golfvellinum. Ég hef átt erfiða tíma undanfarin ár en síðustu tvö hef ég verið að vinna mig aftur upp. Mér gekk vel á mótunum í S-Afríku á undanförnum vikum og ég hef verið að spila gott golf,“ sagði Manassero.