Logi er Íslandsmeistari í holukeppni
Er handhafi allra stærstu titlanna sem eru í boði á Íslandi
Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja, varð í dag Íslandsmeistari í holukeppni eftir að hafa unnð Jóhannes Guðmundsson í Golfklúbbi Reykjavíkur í úrslitaleik, 3&2 á Garðavelli á Akranesi.
Logi byrjaði frekar illa á fyrstu holunum en komst í gang á áttundu braut en þá var hann tvær niður. Logi vann síðan næstu þrjár brautir og komst í forystu sem hann jók síðan á seinni níu holunum og átti þrjár holur þegar tvær voru eftir. Logi lék við hvern sinn fingur og sýndi frábært golf.
Kristján Þór Einarsson, GM, varð í 3. sæti en hann vann Jóhann Frank Halldórsson úr GR.
Með þessum sigri er Logi handhafi allra þriggja stóru titlana í karlagolfi. Hann er Íslandsmeistari í höggleik, Íslandsmeistari í holukeppni og Stigameistari Golfsamband Íslands. Hann er einnig ríkjandi klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja og Íþróttamaður Reykjanesbæjar.