Fréttir

Hin sextán ára Eva er með forystu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2024 kl. 16:39

Hin sextán ára Eva er með forystu

Hin sextán ára Eva Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar er óvæntur forystusauður í kvennaflokki eftir fyrsta dag á Íslandsmótinun í Leiru. Hún lék á tveimur höggum undir pari, 69 höggum og setti um leið nýtt vallarmet á breyttum Hólmsvelli.

„Þetta gekk bara vel, ég sló vel og púttin fóru að detta á seinni níu holunum,“ sagði Eva hógvær eftir hringinn. Hún haltraði síðustu fjórar holurnar en hún sneri sig á hægri fæti á fimmtándu brautinni en lauk engu að síður leik með stæl og fékk tvo fugla á lokakaflanum.

„Framhaldið leggst bara vel í mig. Það mun auðvitað reyna á andlega þáttinn en ég hef verið að bæta mig þar,“ sagði hún m.a. í spjalli við kylfing.is eftir góðan hring.

Stóru nöfnin eru ekki langt undan en Perla Sól Sigurbandsdóttir, GR og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, eru þremur höggum á eftir. Ríkjandi Íslandsmeistari, Ragnhildur Kristinsdóttir, er á þremur höggum yfir pari, fimm höggum á eftir Evu og Guðrún Brá Björgvinsdóttir átti erfiðan dag og lék á fimm yfir pari.