Fréttir

Gunnlaugur Árni um vallarmetshringinn 63 högg - „Besti hringur sem ég hef spilað“
Vallarmets skorkort Gunnlaugs Árna á Hólmsvelli í Leiru.
Sunnudagur 21. júlí 2024 kl. 09:31

Gunnlaugur Árni um vallarmetshringinn 63 högg - „Besti hringur sem ég hef spilað“

„Þetta er líklega besti hringur sem ég hef spilað á ævinni. Það gekk nærri því allt upp. Slátturinn var góður og púttin duttu,“ segir Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, en hann lék best allra á þriðja keppnisdegi og bætti vallarmetið á Hólmsvelli þegar hann lék á 63 höggum, 8 höggum undir pari.

Hólmsvöllur er par 71 eftir smá breytingar fyrir þetta Íslandsmót en tíundan braut sem var par 5 er leikin sem par 4. Þá var holuröðun breytt á öllum brautum nema síðustu fjórum.

Gunnlaugur byrjaði vallarmetshringinn á þremur pörum en fékk svo fugl á 4. holu og síðan þrjá í röð frá 6. til 8. holu. Á seinni níu holunum fékk hann svo fugla á 13., 15., 17. og 18. holu. Á lokaholunni átti hann um 6 metra pútt fyrir erni en boltinn stoppaði rétt við holu.

Gunnlaugur hitti allar flatir í tilskyldum höggafjölda (regulation) nema eina. Hann þurfti að hafa fyrir parinu á tíundu holu og setti niður gott pútt fyrir pari eftir vipp.

„Þetta var frábært og kom mér virkilega vel inn í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Gunnlaugur Árni sem er í 2. sæti og verður í lokaráshópi karla.

Gunnlaugur með góða tilraun fyrir erni á síðustu brautinni en púttið endaði aðeins of stutt.