Fréttir

Glæsileg verðlaun á fjölmennasta opna móti landsins - Gull 24 Open
Mánudagur 24. júní 2024 kl. 09:53

Glæsileg verðlaun á fjölmennasta opna móti landsins - Gull 24 Open

Hið árlega Gull 24 Open verður haldið hjá Golfklúbbi Kiðjabergs næstu helgi eða föstudaginn 28. júní til laugardags 29. júní.Mótið, sem er 18 holu punktakeppni, er það eina sinnar tegundar en ræst er sleitulaust frá kl. 14 á föstudegi til 13.50 á laugardegi þ.e í heila 24 klukkutíma.

Mótið í ár verður glæsilegt í alla staði líkt og fyrri ár en ákveðið var að fjölga punktaflokkum úr tveimur í fjóra.
„Mótið í fyrra var fyrsta Gull 24 Open mótið sem ég stjórnaði og var það mikil reynsla,“ segir Þórður Rafn Gissurarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kiðjabergs. „Eftir mótið heyrði ég í nokkrum keppendum og spurði hvað þeim þætti mega betur fara og í flestum tilvikum var talað um að hafa fleiri flokka og mótið væri fráhrindandi fyrir konur með hærri forgjöf þar sem möguleikar á verðlaunum væru litlir. Kom þá ekkert annað til greina en að breyta því en í ár erum við með tvo karlaflokka; +8 til 15,9 og 16,0 til 24 og tvo kvennaflokka; +8 til 19,9 og 20 til 32 í punktakeppni. Einnig eru verðlaun fyrir besta skor en í fyrra sigraði Sigurður Arnar Garðarsson í þeim flokki eftir að hafa leikið á 63 höggum (-8) og sló vallarmetið.“

Verðlaunin eru ekki af verri endanum en heildarverðmæti þeirra er komið í rúma milljón kr og má búast við að það hækki enn frekar.

„Þetta á að vera flott mót og þá er ekkert annað í stöðunni heldur en að hafa flott verðlaun. Efstu fimm sæti í hverjum flokki vinna til verðlauna og síðan erum við með nándarverðlaun á öllum par 3 holum. Verðlaunin koma frá 66ºnorður, Eagle Golfferðum, Ecco, Nespressó, Ölgerðinni, Golfklúbbi Kiðjabergs og fleirum. Sem dæmi eru fyrstu verðlaunin í hverjum flokki að andvirði 93 þúsund krónur og fimmta sætið jafnast á við fyrstu verðlaun í öðrum opnum mótum. Nándarverðlaunin eru að andvirði 25 þúsund krónur og ef einhver gerist svo góð/ur að fara holu í höggi á 3. eða 16. holu þá eru sérstök verðlaun fyrir það. Á 3. holu er ársaðild að Golfklúbbi Kiðjabergs og á 16. holu er 100.000kr gjafabréf frá Eagle Golfferðum. Gæti verið að það bætist við svipað á hinum par 3 holunum.“

Veðurspáin fyrir mótið er með fínasta móti. Á föstudegi er spáð 13 stiga hita, 5m/s og heiðskírt. Á laugardegi er spáð 13 gráðu hita, skýjað og 4m/s.

„Fólk er skiljanlega mikið að pæla í veðrinu og er að bíða með að bóka sig í mót fyrr en það er nokkuð öruggt að veðrið verði fínt. Miðað við veðurspá núna verður frábært golfveður yfir mótið og kylfingar geti skorað vel. Kiðjabergsvöllur kom mjög vel undan vetri og hefur verið mikil ásókn á völlinn eftir að hann opnaði.

„Völlurinn hefur verið í frábæru standi frá opnun. Heimamenn sem hafa verið í klúbbnum síðan 1993 segjast ekki hafa munað eftir betra ástandi þegar völlurinn opnaði og kylfingar, bæði klúbbmeðlimir og utanaðkomandi, hafa hrósað honum í hástert sem er alltaf gaman að heyra.“

Þórður vonast eftir metþátttöku í ár en mestur var fjöldinn árið 2021 þegar Gull 24 Open var haldið en alls tóku 409 manns þátt. „Í fyrra voru rúmlega 300 manns en þá vantaði hreinlega fólk yfir nóttina þ.e. frá miðnætti til átta um morguninn. Það fyndna var að einmitt á þeim tíma var besta veðrið til að spila. Algjör stilla og kyrrð. Alveg frábærar aðstæður til að spila. Ég skora á fólk að spila um nóttina. Það er ótrúlega gaman og svo einstakt í því umhverfi sem er í kringum Kiðjabergsvöll. Þetta er frekar „one of a kind“ ef maður slettir á ensku. Svo gæti vel verið að við verðum einnig með sérstök aukaverðlaun í boði fyrir þá sem ræsa frá t.d. miðnætti til kl. 6 um morguninn. Hver veit.“

Skráning í Gull 24 Open fer fram í Golfbox.