Frábæru Volcano open í Vestmannaeyjum lokið
„Það er ofboðslega ánægjulegt hvernig þetta heppnaðist hjá okkur um helgina, mótið tókst frábærlega í alla staði og kannski má að segja að menn mótsins hafi verið veðurguðirnir,“ segir Sigursveinn Þórðarson, formaður Golfklúbbs Vestmannaeyja.
Þetta frábæra mót hefur heldur betur fest sig í sessi og var haldið í 28. sinn en síðustu tæpu tuttugu mótin hefur Icelandair verið helsti samstarfsaaðilinn. Mjög gott golf var leikið báða daganaa í blíðunni og var kátt á hjalla á lokahófinu á laugardagskvöldinu.
Ræst er út af öllum teigum tvisvar sinnum yfir daginn og á seinni degi er golfurum raðað eftir stöðu. Keppt var í tveimur flokkum, 1. flokkur náði upp í 14,4 í forgjöf og á seinni með 28 sem hámarksforgjöf. Ólíkt öðrum mótum keppa kynin sín á milli og verður kvenpeningurinn ekki sakaður um að láta ljós sitt skína á verðlaunaafhendingunni, ekki nema þegar kom að því að draga úr skorkortum.
Í fyrsta flokki vann Vestmannaeyingurinn Jóhann Pálmsson á 77 punktum, hann er með fimm í forgjöf og átti tvo frábæra hringi, sá seinni á 68 höggun eða tveimur undir pari. Handboltamarkmaðurinn fyrrverandi, Birkir Ívar Guðmundsson, skilaði sömuleiðis 77 punktum en Jóhann var með betri hring. Ívar Sigurður Kristinsson lenti svo í þriðja sæti á 75 punktum.
Í öðrum flokki var það Vignir Sveinsson sem var hlutskarpastur á 79 punktum og vann öruggan sigur. Í öðru sæti var Kristinn Ólafsson á 75 punktum og Erling Adolf Ágústsson lenti í þriðja sæti á 73 punktum.
Daníel Ingi Sigurjónsson úr Golfklúbbi Vestmannaeyja, spilaði besta golfið, endaði mótið á -4 eða samtals 136 höggum.
Myndir og viðtöl við handboltagoðsögnina Kristján Arason, sigurvegara mótsins, Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, og fleiri fylgja með þessari frétt.