Fréttir

Er erfiðast að ná draumahögginu frá meistarateigum á Bergvíkinni?
Stefán Guðjónsson, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 180 metra langri Bergvíkurholu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 17. júní 2024 kl. 17:08

Er erfiðast að ná draumahögginu frá meistarateigum á Bergvíkinni?

Stefán Guðjónsson, lágforgjafarkylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja komst í mjög fámennan hóp þeirra sem hafa farið holu í höggi frá meistarateigum á 3. brautinni í Leiru, Bergvíkinni, sem margir telja mestu golfbraut landsins.

Stefán sló með 4-járni en 3. brautin frá meistarateigum telur um 180 metra á miðja flöt þar sem stöngin var þegar Stefán náði draumahögginu. Það er magnað að standa á þessum teig í nokkurra tuga metra hæð og horfa yfir Bergvíkina. Hvað þá í mótvindi.

Fjölmargir hafa farið holu í höggi að undan förnu. Snorri Rafn William Davíðsson úr GS fór holu í höggi á 2. braut á Leirdalsvelli á unglingamóti og var með 8-járnið en hann bætti svo við öðrum erni á tólftu braut.

Tinna Alexía Harðardóttir fór holu í höggi á Hlíðavelli í Mosfellsbæ á Íslandsmótinu í holukeppni kvenna í vikunni. Hún notaði 7-járn af 153 metra færi.

Ingvar Ingvarsson fór holu í höggi á nýrri 17. braut á Hvaleyrinni, fyrstur til að gera það. Hann smellhitti 7-járnið eins og svo margir aðrir.

Þá greindu við frá því nýlega að Friðrik K. Jónsson hafi náð draumahögginu á Bergvíkinni og Bjarni Hafþór Helgason smellti boltanum í holu á Leirdalsvelli.

Fleiri eru eflaust á þessum lista, við hvetjum kylfinga til að senda okkur tilkynningu og mynd ef þeir fara holu í höggi.

Þessar myndir er teknar frá meistarateignum á Bergvík.