Fréttir

Ekkert klósett, tré né neitt til að fela sig á bak við
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 26. apríl 2024 kl. 07:00

Ekkert klósett, tré né neitt til að fela sig á bak við

Karen Guðnadóttir er kylfingur dagsins. Hún er uppalin í Keflavík og byrjaði golfferilinn í Leirunni en hefur undanfarin ár búið í Danmörku og spilar golf þar á fullum krafti. Hún er stolt frænka núverandi Íslandsmeistara, Loga Sigurðssonar og mun koma til Íslands í sumar að spila í Leirunni í minningarmóti um föður sinn, Guðna Sveinsson, sem féll frá í fyrra aðeins 64 ára gamall eftir að hafa fengið heilakrabbamein. Hún starfar sem aðstoðarþjálfari í klúbbnum sem hún er í í Danmörku ásamt því að vinna í golfverslun klúbbsins.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Tólf ára gömul fór ég á golfnámskeið í Leirunni eftir að hafa ekki skilið árin á undan hvernig þessi íþrótt gat verið skemmtileg. En ég hins vegar smitaðist um leið á námskeiðinu.

Helstu afrek í golfinu?

Hef unnið tvö stigamót á sterkustu mótaröðinni á Íslandi og stigameistaratitil. Landsliðsverkefni. Hef tvisvar sinnum farið holu í höggi. Jafnaði leik í holukeppni við unga danska konu sem vann svo á Evrópumótaröðinni þremur vikum seinna.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Hver hefur ekki lent í því að þurfa að fara á klósettið þar sem er hvorki klósett, tré eða neitt til að fela sig á bak við. Tja annars hef ég lent í því að ég var mætt á mótaröðinni á Hellu, sem er nánast tveggja tíma akstur frá Keflavík og þegar ég var að hita upp tók ég eftir því að mig vantaði pútterinn minn. Ég var heppin að fá lánaðan pútter inni í klúbbhúsinu fyrir hringinn og spilaði svo með minn pútter fyrst daginn eftir. Gekk svo sem fínt að pútta þar sem þetta var svipuð tegund af pútter.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

M.a. Ólafía Þórunn, Guðrún Brá, Úlfar Jóns, og margir fleiri íslenskir.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?

Nei alls ekki.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Vipp, er að vinna í þeim núna með aðstoð þjálfara míns.

Aldur: 32 ára.

Klúbbur: Sønderjyllands Golfklub.

Forgjöf: +0,3

Uppáhaldsmatur: Kjötsúpa.

Uppáhaldsdrykkur: Eitthvað með rabbabarabragði sem gos eða safi, ég elska hinsvegar að smakka hitt og þetta.

Uppáhaldskylfingur: Ég veit það ekki, finnst gaman að spila með flestum. Ég hef nú alveg gaman að mörgum í sjónvarpinu svosem líka. Hef oft haft gaman af Rory.

Þrír uppáhaldsgolfvellir: Á erfitt með það en það fyrsta sem kemur upp í kollinn af völlum sem ég man vel eftir: Vestmannaeyjar, Brautarholt, Helsingør

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: Bergvíkin, áttunda í Eyjum og sjötta á Keili.

Erfiðasta golfholan: Þrettánda í Benniksgaard, Danmörku.

Erfiðasta höggið: Högg undir pressu: t.d. til að jafna leik eða álíka. Högg á erfiðri holu í brjáluðum hliðarvind. Högg í t.d. mjög miklum halla með lítið svæði til að vinna með.                            

Ég hlusta á: Marga.

Besta skor: -4 í Leiru á bláum teigum.

Besti kylfingurinn: Nelly Korda

Golfpokinn

Dræver: Titleist Tsr3

Brautartré: Titleist Tsr2

Járn: Ping i230

Fleygjárn: Titleist Vokey Sm9

Pútter: Taylormade Kalea

Hanski: Footjooy og Hirzl

Skór: Ecco og Footjoy

Karen ásamt föður sínum heitnum, Guðna Sveinssyni á golfvelli í Danmörku en þetta var ein seinasti hringurinn sem feðginin gátu leikið saman.

Karen ásamt eiginmanni sínum, Stefáni Má Jónassyni og hundinum Molly.