Bergvíkin í sviðsljósinu á Íslandsmótinu - breytingar í Leiru
Frægasta golfhola landsins, 3. brautin í Leiru, Bergvíkin verður í meira sviðljósi á Íslandsmótinu í golfi í sumar en í fyrri Íslandsmótum. Með breytingum á röðun brauta á Hólmsvelli verður hún tólfta braut í stað þess að vera sú þriðja eins og hún hefur verið frá árin 1986 þegar 18 holu völlur opnaði.
Breytingarnar eru fleiri því upphafshola vallarins verður 9. brautin. Núverandi tíunda til 14. verða önnur til sjötta, núverandi 6.-8. brautir verða 7.-9. Fyrsta til fimmta verða 10.-14. hola en síðustu fjórar brautirnar eins og þær eru núnar halda sömu númerum.
Forráðamenn GS vildu með þessum breytingum gera núverandi brautir 2-4 sýnilegri í útsendingu sjónvarps en margir telja þetta vera eina af erfiðari byrjunum á golfhring hér á landi. Sýnt hefur verið frá Íslandsmótinu í golfi í beinni útsendingu síðan 1998. Fyrsta beina útsendingin var einmitt frá Hólmsvelli í Leiru fyrir 26 árum síðan.
Hér má sjá breytingarnar á röðun golfbrauta á Hólmsvelli.