Aron Snær í forystu - Gunnlaugur annar og setti nýtt vallarmet
Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG lék frábært golf á þriðja hring á Íslandsmótinu á Hólmsvelli í Leiru og bætti dagsgamalt vallarmet þegar hann kom inn á átta höggum undir pari og kom sér í annað sætið. Gunnlaugur er höggi á eftir Aroni Snæ Júlíussyni, GKG, en hann er á tólf undir pari og lék á þremur undir á þriðja hring, 68 höggum. Aron Snær varð Íslandsmeistari karla árið 2021 þegar leikið var á Akureyri.
Selfyssingurinn Aron Emil Gunnarsson verður annað árið í röð í lokaholli á Íslandsmóti en hann er á -11 eins og Gunnlaugur. Tveir kylfingar eru á tíu undir pari, Reykvíkingarnir Páll Birkir Reynisson og Hákon Örn Magnsson. Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG og Kristján Þór Einarsson úr GM eru á -9. Böðvar Bragi Pálsson sem var í forystu eftir tvo daga átti frekar erfiðan dag og lék á tveimur yfir. Hann er á -8 og er jafn í 8. sæti með þeim Sigurði Bjarka Blumenstein og Markúsi Marelssyni. Spennan er því mikil og er óhætt að segja að allir sem hér eru upptaldir eigi möguleika á sigri.
Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, lék frábært golf og bætti vallarmetið.
Aron Emil Gunnarsson er í 3. sæti fyrir lokadaginn.
Hákon Örn Magnússon er jafn í 4. sæti. Hann er hér á 15. teig.
Páll Birkir Reynisson úr GR hefur komið á óvart en hann er jafn í 4. sæti á -10.