Allir Íslendingarnir heim eftir 36 holur
Enginn þriggja Íslendinganna á Áskorendamótaröðinni komst í gegnum niðurskurðinn á Le Vaudreuil mótinu í Frakklandi í dag. Haraldur Franklín Magnús var þó aðeins höggi frá niðurskurðinum.
Það sem verra er að Haraldur tapaði þremur höggum á síðustu fimm brautunum. Axel Bóasson var fjögur högg frá niðurskurðinum og hann var líka í óstuði á síðustu tveimur holunum en þar tapaði hann þremur höggum á síðustu tveimur en tók eflaust áhættu því hann vantaði eitt högg upp á niðurskurðinn þegar tvær voru eftir.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék sinn versta hring á ferli sínum sem atvinnumaður þegar hann kom inn á 84 höggum eftir fyrsta hringinn. Hann náði sér heldur ekki á strik í öðrum hring og endaði á 18 höggum yfir pari 36 holurnar. Skorkortið er ansi skrautlegt, þrjár holur á 7 höggum og ein á 8 höggum, eitthvað sem er mjög óvanalegt hjá atvinnumanni.