Nörd með áráttu fyrir golfi
Sem betur fer er kona kylfings dagsins í golfi, annars gengi hann líklega lífsins veg einn og óstuddur. Alexander er nörd með áráttu fyrir golfi, svo mikla að hann stofnaði vefverslunina Betribolti.is, til að bjóða íslenskum kylfingum upp á þá snilld sem OnCore golfboltar eru en fyrst og fremst fór hann út í business-inn til að flytja boltana inn fyrir sjálfan sig. Fyrir utan að flytja inn golfbolta vinnur hann hjá Eimskip og fær hugsanlega góð kjör á innflutningi boltanna en móttökur íslenskra kylfinga við OnCore boltunum hafa verið mjög góðar.
Kylfingur dagsins heitir Alexander Harrason og býr á Selfossi ásamt unnustu sinni.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Ég byrjaði örugglega um tíu ára aldur og var það Emil afi minn sem var einn af fræknum öldungum í Golfklúbbnum á Flúðum á þeim tíma sem kynnti mig fyrir leiknum. Ég fékk hins vegar takmarkaða kennslu og var vægast sagt lélegur, með skelfilegt grip og slæsaði allt! Ef YouTube golf hefði verið í þá daga eins og það er í dag.. væri maður ekki bara á túrnum?
Helstu afrek í golfinu?
Það verður að vera sigur í meistaramótinu á Selfossi í 2.fl nú í sumar. Ég tók upp kylfurnar á ný í lok tímabils 2021 síðan úr grunnskóla og hefur þetta heltekið mig og forgjöfin lækkað hratt síðan.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Því miður er engin góð neyðarleg saga af sjálfum mér. Manni fannst neyðarlegt að kalla FORE þegar maður var að byrja uppá nýtt en það á auðvitað ekkert að vera neyðarlegt að kalla FORE.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Shoutout á Baron í @pabbagolf.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei ég er of rökhugsandi til þess.
Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?
Það myndu vera púttin og sérstaklega þau löngu, maður æfir þetta skammarlega lítið en svo er ég að huga að meira fyrirgefandi pútter líka.
Aldur: 32
Klúbbur: Golfklúbbur Selfoss
Forgjöf: 10,5 og skal ná undir 10 þetta tímabilið.
Uppáhaldsmatur: Ég er mikið fyrir hágæða hamborgara en er lítið hrifinn af lélegum sjoppuborgara.
Uppáhaldsdrykkur: Það myndi vera góður IPA bjór.
Uppáhaldskylfingur: Shane Lowry hlýtur þann heiður, gaman að horfa á hann og skemmtilegur karakter.
Þrír uppáhaldsgolfvellir: Heimavöllurinn á Selfossi finnst mér virkilega skemmtilegur og er í mikilli uppbyggingu, uppeldisvöllurinn á Flúðum er einnig alveg frábær og svo er lítið þekktur völlur í sveitinni á Ítalíu þar sem ég trúlofaðist unnustu minni í golfferð haustið 2023, sem heitir Terre dei Consoli, í sömu ferð skoðuðum við Marco Simone vikuna eftir Ryder Cup og það var upplifun að ganga völlinn og skoða hann í svona keppnisstandi.
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: Mér finnst tvær af nýju brautunum á Svarfhólsvelli á Selfossi frábærlega hannaðar en eiga eftir að verða fallegri þegar breytingar vallarins verða lengra komnar, það er semi stutt par 5 sem er nú braut nr. 2(Svarfhólsvöllur verður fljótlega 14 holur og þá breytist röðin á holum) en flötin er ekki djúp, hún er hinsvegar breið en það eru tveir stallar á henni og fyrir framan er mikill bakki sem rennur niður í vatn þannig að innáhöggið má ekki vera centimeter of stutt þá rennur hann í vatnið, það eru glompur hægra og vinstra megin fyrir aftan flöt og aðeins lengra þá er maður OB. Einnig er stutt par 4 sem er nú nr. 3 í uppáhaldi en þó hún sé stutt þá er í raun fráleitt að reyna við flötina þar sem skurður gætir hennar og má því upphafshöggið ekki vera of langt og innáhöggið ekki vera of stutt. Svo spilaði ég nýverið á Akranesi en þar fannst mér braut nr. 2 afar falleg og skemmtileg sem er stutt par 4 þar sem flötin er nánast inni í skógi og maður sér ekki flötina frá teig vegna trjánna og er upphafshöggið því einnig aðeins blint.
Erfiðasta golfholan: Núverandi nr. 7 á Selfossi er semi löng par 3 með djúpri glompu fyrir framan, flötin er í miklum halla á móti manni og er vont að vera hægra megin og enn verra að vera langur, það er engin auðveld holustaðsetning á þessari flöt.
Hefurðu farið holu í höggi? Ef ekki lýstu högginu sem kom því næst. Ekki enn farið holu í höggi en það er aldrei útilokað að það gerist á næstu par 3! Það hafa verið nokkrir "tap in" fuglar en eigum við ekki að segja að þetta sé bara tímaspursmál.
Erfiðasta höggið: Ég ætla að vera kokhraustur og segja að það sé ekkert erfitt högg, bara lélegur undirbúningur og hugarfar.
Ég hlusta á: Fullt, fullt, fullt af hlaðvörpum um golf. Hack it out er núna í mestu uppáhaldi.
Besta skor: +2 á 9 holum og +6 á 18 holum
Besti kylfingurinn: Verður maður ekki að segja Scheffler núna en ef spurningin snýr að hver er bestur allra tíma þá er það Tiger sem maður horfði á sem gutti.
Golfpokinn
Dræver: Callaway Paradym 9° Kai'Li White skaft.
Brautartré: Taylormade Stealth 2+ 3w Kai'li Blue skaft og Cobra King Tec 4h MMT skaft.
Járn: Mizuno MP-18 MMC 3i Steelfiber i95 skaft og 5-PW Cobra Forged Tec Copper KBS $-Taper Lite sköft.
Fleygjárn: 48° Cleveland RTX 6, 54° Cleveland RTX 5 og 58° Cleveland RTX 5 Full Face allt með Dynamic Gold Spinner sköftum.
Pútter: Gullfallegur Scotty Cameron Circa 62 model No. 3 frá árinu 2006 og er enn með original handsaumuðu leðurgripi, yndislegt feel í honum en þar sem ég þarf að bæta mig í púttunum langar mig í nútímalegri meira fyrirgefandi pútter og er Scotty Cameron Squareback efst á óskalistanum núna.
Bolti: OnCore Vero X1 frá *hósthóst* www.Betribolti.is
Hanski: OnCore leðurhanski frá *hósthósthóst* www.Betribolti.is
Skór: Mizuno Genem með nauðsynlegum BOA reimum.