Kylfingur dagsins: „Mig langaði svo að verða góð í golfi“
Ragnheiður Sigurðardóttir á og rekur fyrirtæki sem heitir Hótelrekstur og heimili. Hún er hefur menntað sig í fjármálum, kennslufræðum og ferðamálafræðum og síðast en ekki síst hefur hún lært sitthvað í golfi. Hún er í stjórn LEK (Landssamband eldri kylfinga) og það er sjaldan dauður tími hjá henni.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Ég byrjaði í golfi árið 1994. Mig hafði alltaf langað til þess að prufa enda nokkrir í kringum mig sem hvöttu mig til þess að koma með sér út á golfvöll. Ég man hvað mér þótti þetta erfitt fyrst. Margsinnis ætlaði ég að hætta en síðan langaði mig svo mikið til þess að verða góð í golfi að ég þrjóskaðist áfram og sé ekki eftir því. Ég fór reyndar strax til golfkennara, hans Sigga P heitins upp í GR sem hjálpaði mér alveg gríðarlega mikið í mörg ár.
Helstu afrek í golfinu?
Undanfarin ár hef ég bæði verið i landsliði LEK og GSÍ 50+. Það er eins og nýr heimur í keppnisgolfi opnist fyrir manni þegar maður verður 50 ára. Í keppnismótaröð LEK eru átta mót sem eru frá ca 20. maí til 15.september en fimm af þeim telja til beggja landsliða. Milli þess sem við erum að keppa á þessum LEK mótum förum við keppnisferðir með LEK og GSÍ 50+, tökum þátt í meistaramóti, þ.e ef þessar landsliðsferðir eru ekki á sama tíma, keppum fyrir hönd okkar klúbbs í sveitakeppni 50+ og 65+ þannig að það er nánast aldrei dauður tími frá maí til ca 15.september :)
Á þessu ári ákvað ég reyndar að byrja keppnisgolfið fyrr og gera allt sem mig hefur dreymt um golflega séð. Við Þórdís Geirs byrjuðum á því í febrúar að fara og keppa á Spáni, síðan fór ég á franska International og komst þar í gegnum niðurskurðinn sem var dásamlegt. Síðan var það vináttukeppni við Hollendinga og þaðan fór ég með kvennalandsliði LEK að keppa í Belgíu og næsta stórverkefni er Íslandsmótið í Oddi, sveitakeppni 50+ og að keppa á EM 50+ á Spáni með kvennalandsliði GSÍ 50+. Þetta eru svo mikil forréttindi að hafa þessa heilsu á þessum aldri enda er ekkert betra en að vera úti í náttúrunni.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Ætli það hafi ekki verið á Spáni um páskana. Þá tók ég rangt mið og sló inn í garð hjá fólki sem sat þar í mestu makindum. En það slasaðist enginn sem betur fer.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Ætli það séu bara ekki synir mínir atvinnukylfingarnir Ragnar Már og Sigurður Arnar
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Já bæði og. Trúi mikið á karma.
Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?
Í dag eru það stuttu höggin.
Aldur: 56 ára
Klúbbur: GKG
Forgjöf: 4,2
Uppáhaldsmatur: Nautasteik með rjómaostasósu
Uppáhaldsdrykkur: Sódavatn
Uppáhaldskylfingur: Tiger Woods hefur ávallt verið minn uppáhaldskylfingur.
Þrír uppáhaldsgolfvellir: Urriðavöllur, Kiðjaberg og Hvaleyrarvöllur.
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: Fjórtánda holan í GKG. Að standa þarna uppi og horfa yfir er dásamlegt. Sjöunda holan í Kiðjabergi og fimmtánda á Urriðavelli.
Erfiðasta golfholan: Það er ekki einhver sérstök sem er erfiðari en önnur. Að keppa ávallt á bláum teigum reynast brautirnar lengri og þá þarf oft að slá inn á með hybrid eða jafnvel brautartré eða jafnvel að leggja upp og treysta á chippin fyrir einpútt.
Erfiðasta höggið: 60-80 metrar.
Ég hlusta á: Ég hlusta mikið á Storytel og minn playlista á Spotify.
Besta skor: 72 högg
Besti kylfingurinn: Það eru svo margir góðir íslenskir kylfingar í báðum flokkum að mér reynist erfitt að benda á eitt nafn.
Golfpokinn
Dræver: Ping
Brautartré: bæði 3 og 5 tré í Ping, Ping hybridar
Járn: TitleIst
Fleygjárn: TitleIst
Boltar: Titleist PROV 1
Pútter: Odissey
Hanski: FJ
Skór: FJ