Kylfingur dagsins

Tveir golfarar hafa orðið fyrir barðinu á kylfingi dagsins
Draumahöggið í Tyrklandi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 20. september 2023 kl. 07:00

Tveir golfarar hafa orðið fyrir barðinu á kylfingi dagsins

Baldur Ingi Jónasson er ættaður frá Vigur við Ísafjarðardjúp. Áður en hann gerði garðinn frægan á golfvellinum, lék hann körfubolta, lengst af með liði KFÍ sem í dag heitir Vestri. Baldur starfar sem mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar í dag, hefur bæði farið holu í höggi og slegið golfboltanum sínum í aðra golfara. Konan hans veltir stundum fyrir sér hvort hann ætli að færa lögheimili sitt í golfskálann í Tungudal.

Baldur Ingi Jónasson er kylfingur dagsins.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Um aldamótin byrjaði ég fyrir forvitnissakir að slá nokkra bolta og taka einstaka hring hér á Ísafirði. Til að byrja með var golfiðkunin mjög stopul en áhuginn fór sívaxandi. Undanfarin 6 ár hefur maður varla misst út dag þegar aðstæður hafa leyft. Konan hefur nefnt hvort ég vilji ekki færa lögheimilið í golfskálann. 

Helstu afrek í golfinu?

Ætli það sé ekki hola í höggi á golfvellinum Titanic í Tyrklandi. Einstaklega falleg 136m hola með tré nokkru fyrir framan flötina sem hindrun. Smá mótvindur var til staðar og 7 járnið því dregið fram. Ég ákvað að reyna að „feida“ boltanum framhjá trénu og sem næst holu, en svo skemmtilega vildi til að hún lenti ca. 3 metra frá holu og rann ljúflega ofan í. Ekki heldur slæmt að þrír ágætir félagar mínir urðu vitni að þessu. Auðunn Einarsson, einn af betri kylfingum Íslands, fór svo næstum einnig holu í höggi á sömu holu í næsta höggi, endaði um 30 cm frá holu. Svo má kannski nefna að við félagarnir Shiran og Pétur, náðum að spila 54 holur á einum degi á Sierra Golf Resort í Póllandi.   

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Mér þótti það afar óþægilegt og neyðarlegt þegar ég sló bolta í höfuðið á ágætum kylfingi hér á 8. brautinni í Tungudal á Ísafirði af ríflega 200 metra færi. Þetta var áður en teigurinn á 9. holunni var færður ofar og var það því venjan að þeir sem höfðu lokið að slá af 9. teig, gengu til baka eftir 8. brautinni. Ég sló af 8. teig og bjóst raunar ekki við að drífa þessa 220-240 metra sem voru í hollið á undan, auk þess sem það var mótvindur. Auðvitað smell-hitti ég boltann og reyndist hann fljúga aðeins of mikið til vinstri og beint í áttina að fyrrgreindu holli. Eðli máls samkvæmt öskraði ég FORE og vék umræddur kylfingur þá sér aðeins undan en fékk boltann engu að síður vinstra megin í hnakkann, með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar og vankaðist allnokkuð, jafnvel rotaðist um stund. Ég bað nærstadda strax um að hringja á sjúkrabíl og hljóp til viðkomandi til að kanna með líðan og almennt ástand. Hélt vissulega að ég hefði valdið umtalsverðum skaða. Þessi kylfingur kallaði hins vegar ekki allt ömmu sína og stóð fljótt á fætur. Sjúkrabíllinn kom á staðinn, en það reyndist fýluferð, því golfarinn þvertók fyrir að fara með honum og kláraði hringinn. Kúlan sem viðkomandi fékk á hnakkann reyndist nánast jafn stór og golfkúlan sem hann fékk í hnakkann. Þessi sami kylfingur reyndist fremur óheppinn, þar sem hann lenti í því daginn eftir að kúlu var slegið í fótinn á honum. Það var þó ekki af mínum völdum og honum varð ekki meint af sem betur fer. Ég lenti svo reyndar aftur nýlega í sambærilegu atviki, þar sem ég var að slá af 1. teig á Tungudalsvelli. Sá sem varð fyrir barðinu á mér þá var að spila á 4. braut, en hann snéri sér við þegar ég kallaði FORE og fékk boltann í hálsinn. Sá reyndist sleppa öllu betur en fyrri kylfingur og var sáttur við skaðabætur í formi bjórs að hring loknum. 

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Ekki spilað með mörgum frægum, en átti áhugaverðan hring með Vilhjálmi Birgissyni, verkalýðsforkólfi í móti á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Nei, alls ekki.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Járnin myndi ég segja og svo að tempra keppnisskapið, setja raunhæfari væntingar.   

Aldur: 51 árs

Klúbbur: Golfklúbbur Ísafjarðar

Forgjöf: 5,5

Uppáhaldsmatur: Nautalund/steik, með öllu hefðbundnu meðlæti

Uppáhaldsdrykkur: Pepsi og Virgin Mojito

Uppáhaldskylfingur: Tiger Woods

Þrír uppáhaldsgolfvellir: Hamarsvöllur, Hlíðarvöllur, Tungudalsvöllur

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 

  1. hola á Hamarsvelli, 7. braut á Patreksfjarðarvelli, 7. braut á Meðaldalsvelli, Þingeyri

Erfiðasta golfholan: 

  1. holan á Patreksfirði (par 3)

Erfiðasta höggið: Þriðja púttið (aðallega ergilegasta)

Ég hlusta á: Queen í uppáhaldi.  Alæta á 80´s tónlist, Prodigy og fleira í þeim dúr.

Besta skor: 69 á Syðridalsvelli, Bolungarvík

Besti kylfingurinn:  Geri ekki upp á milli Hovland og Rory

Golfpokinn

Dræver: Titleist TSR3

Brautartré: Titleist TSR3

Járn: Titleist T300

Fleygjárn: Titleist Vokey

Pútter:  Scottie Cameron SUPER SELECT Fastback 1,5

Hanski: Breytilegt

Skór: FootJoy Fuel

Baldur og Shirian Þórisson

Tyrkland

Falleg golfhola í Tyrklandi

Með félögum í golfferð í Tyrklandi