Kylfingur dagsins

Sumum henta einstaklingsíþróttir betur en hópíþróttir og þá er golfið hugsanlegt svar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 12. ágúst 2024 kl. 09:20

Sumum henta einstaklingsíþróttir betur en hópíþróttir og þá er golfið hugsanlegt svar

Eftir að hafa byrjað í hópíþróttum áttaði kylfingur dagsins sig á því að einstaklingsgreinar hentuðu honum hugsanlega betur og í dag sér hann mest eftir að hafa hætt í golfi sem unglingur en einhvers staðar segir að betra sé seint en aldrei, hann byrjaði aftur og forgjöfin lækkar nánast með hverjum spiluðum hring. 
Kylfingur dagsins heitir Eyþór Oddsson og býr á Sauðárkróki.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?


Ég hef trúlega verið í fjórða bekk árið 2000-2001 þegar það gerist. Ég æfði bæði handbolta og fótbolta en á þessum tíma var ég farinn að missa ástríðuna fyrir því og einstaklingsgreinar hentuðu mér betur og gera enn þann dag í dag. Ég hætti þó að æfa golf þegar ég var orðinn unglingur sem eru ein mestu mistök lífs míns, enda hef ég oft hugsað í dag hversu langt ætli ég væri kominn hefði ég aldrei hætt. Grunnurinn hefur þó fylgt mér lengi.

Helstu afrek í golfinu?


Eftir að hafa spilað einn og einn hring á sumrin 2021 og 2022, tók ég þá ákvörðun rétt eftir jólin 2022 að draga golfsettið af hillunni, setja mér markmið og æfa markvisst allt árið og árangurinn lét ekki á sér standa. Ég hóf sumarið í 31 í forgjöf en endaði í 19.5. Ég er nú kominn í 17 og finnst ég finna merki um að ég eigi enn eitthvað inni af bætingum. Það verður bara að koma í ljós hvort þau orð standist.

  

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?


Það eina sem mér dettur í hug er þegar ég stóð á teignum á 7. holu á Hlíðarenda á Sauðárkróki í fyrra, sem er 260 metra par 4 braut í brekku upp í móti. Ég í einlægni minni hélt að hollið fyrir framan mig væri á gríninu þegar ég slæ boltann, enda veit ég að ég slæ ekki inn á grín, og var grunlaus um að hollið var bara alls ekki komið svo langt, það leit bara þannig út, en þeir voru inni á miðri braut. Sem betur fer varð þó engum meint af en þetta fannst mér hrikalega vandræðalegt þegar ég var svo spurður af hverju ég hafi ákveðið að slá og áttaði mig á mistökunum.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?


Þekktasta nafnið er klárlega Pétur Rúnar, körfuboltasnillingur úr Tindastól.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 


Nei, ekki beint, en mér finnst þó aldrei þægilegt að mæta rétt fyrir rástíma. Alltaf best að vera búinn að vera á svæðinu, taka hreyfiteygjur, kannski nokkur pútt, og búinn að koma huganum í rólegt ástand. Ég þarf stundum að átta mig á því að í golfi er rólegt hugarástand lykillinn og það þarf bara að leysa hvert högg fyrir sig með yfirvegun. Yfirspenna veldur því bara yfirleitt að maður nær síður þeirri stefnu á kúluna sem áætluð var.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?


Högglengd og lengdarstjórnun í lengri höggum. Ég slæ ekki langt samanborið við marga sem ég spila með, en er almennt með tiltölulega beint boltaflug og lendi sjaldan í miklum vandræðum. Ég þarf hinsvegar oft að ná að tengja aðeins betur saman langa spilið og stutta spilið. Er að ná í full marga double bogey samanborið við pör að mínu mati. Þó er ekkert rosalega algengt að ég sé í meiri vandræðum en double á holu, sem er jákvætt.

 

Aldur: 33 ára

 

Klúbbur: Golfklúbbur Skagafjarðar (GSS)

 

Forgjöf: Byrja sumarið 2024 í 19.5 en er kominn í 17 þegar við höldum inn í ágúst mánuðinn.

 

Uppáhaldsmatur: Asískur matur þar sem uppistaðan eru hrísgrjón, kjöt, grænmeti og góð sósa. Það er ekki bara bragðgott, heldur fer vel í magann og gefur mér bestu og mest langvarandi orkuna.

 

Uppáhaldsdrykkur: Íslenskt vatn er bara klassískt. Glas af eplasafa við og við finnst mér líka frábært!

 

Uppáhaldskylfingur: Þó ég spili golf þá hef ég ekki dottið í það að horfa á sjónvarpsgolf og segi því pass því ég get ekki gert upp á milli þeirra sem ég hef spilað golf með.

 

Þrír uppáhaldsgolfvellir:

Ég ætla að vera með Norðurlandsþema þar sem ég hef spilað mest hér nýlega og lítið sem ekkert á stóru völlunum fyrir sunnan. Fyrir utan völlinn heima á Króknum sem mér finnst bestur, þá tilnefni ég #1 Katlavöll á Húsavík, #2 Siglufjörð og #3 Dalvík.   

 

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 

#1 er klárlega 9. holan á Sauðárkróki sem er par 4. Valið er ekki endilega af golftengdum ástæðum, heldur því brautin liggur niður í móti með útsýnið yfir allan fjörðinn.
#2 ætla ég að tilnefna báðar stuttu par 3 holurnar á Sigló, 6. Og 7. holu. Fyrri er inn í skóg og sú næsta upp á hálfgerða eyju. Hef ágætlega gaman af þessari fjölbreyttu náttúrudýrð.
#3 Þá hef ég lúmskt gaman af 3. holunni á Húsavík. Par 5 hola sem er mjög krefjandi þar sem brautin er tiltölulega bein til að byrja með og tekur í rauninni síðan 90° beygju (allavega í minningunni) til hægri og þar situr green-ið uppi á hól.

 

Erfiðasta golfholan: Ég tilnefni 3. holuna á Húsavík aftur. Hún er erfið en ég hef samt lúmskt gaman af henni. Í fyrra var það fyrsta brautin á heimavellinum á Króknum sem reyndist mér erfiðust en í ár fylgi ég skorkortinu betur og næ í fæst pör á þeirri fjórðu.  

 

Erfiðasta höggið: Öll högg sem krefjast þess að ég sitji upp í brekku og slæ kúlu sem er staðsett fyrir neðan mig í brekkunni eru erfiðustu höggin að mínu mati. Rétt á eftir því kemur andstæðan, að slá kúlu í brekku sem er fyrir ofan fætur.                             

 

Ég hlusta á: Podcast um íþróttir, aðallega fótbolta, en í tónlistinni er ég mest í víkingarokkinu, t.d. Miracle of Sound.

 

Besta skor: 39 á 9 holum en 88 á 18. Sé merki um að ég sé á réttri leið, hef trú á að ég sé ennþá að bæta mig.  

 

Besti kylfingurinn: Horfi reyndar 0 á sjónvarpsgolf þannig að ég held að svörin mín við þessu séu ekki beint marktæk.

 

Golfpokinn


Allur golfpokinn minn er frá TaylorMade. Allar kylfur eru Burner að undanskildum Sim Max Sand Wedge og Spider Tour pútter. Það er til skoðunar að fara í mælingu fyrir næsta sumar til að sjá hvort ég geti fundið kylfur sem þjóna mér betur, án þess þó að ég sé eitthvað að kvarta yfir núverandi búnaði. Ég nota að mestu OnCore kúlurnar í augnablikinu sem seldar eru hjá betribolti.is. Er með TaylorMade TourResponse og TP5x líka í töskunni.

 

Hanski: Er að nota Callaway hanska, en hef enga skoðun á því hvaða hanski er bestur, bara að hann passi.

Skór: Adidas Ultraboost