Veruleg hækkun vallargjalda í Bretlandi - dýrasti 18 holu hringurinn kostar 175 þús. kr.
Vallargjöld hafa hækkað verulega víða um Bretland og Írland á síðustu misserum. Hækkandi rekstrarkostnaður golfvalla skýrir hluta af því, en það er fleira í gangi undir yfirborðinu.
Meðalvallargjald valla á Topp 100 listanum nú um 43.000 kr fyrir 18 holu hring. Það er 10,7% hækkun frá síðasta ári og tæplega 50% hærra en árið 2021. Hæsta gjaldið 175.000 er á Turnberry í júlí, niður í 7.200 kr. á Shiskine – en það er hækkun alls staðar.
Sumar hækkanir eru sérstaklega áberandi. Castlerock hefur hækkað um 41% milli ára, í 40.500 kr, enn meiri eða 69% hækkun var í júlí og fór í 48.600 kr þegar The Open var haldið á Royal Portrush í nágrenninu en þar er hækkunin 13% í 69.500 kr. Nairn sem er í norður Skotlandi kostar 53.000 kr. eftir 30% hækkun.
En hvers vegna þessi mikla hækkun?
Aukinn rekstrarkostnaður
Aukinn rekstrarkostnaður er fyrsta svarið sem klúbbarnir benda á.
Og það er góð og gild röksemd. Það hefur aldrei verið dýrara að viðhalda golfvelli í hæsta gæðaflokki. Eldsneyti, áburður, vélar, mannafli og veitur hafa allt hækkað verulega og toppvellir geta einfaldlega ekki skorið niður án þess að fórna gæðum. Ef þú rukkar yfir 35.000 kr verða flatirnar að vera gallalausar og glompurnar mega ekki líta út eins og þær hafi verið rakaðar með heykvísl.
En þetta útskýrir ekki allt. Tvær aðrar meginástæður eru einnig til staðar– önnur þeirra er sjaldnar rædd, en gæti verið stærsta ástæðan fyrir því að þú þarft nú að endurfjármagna húsið til að spila á sumum af bestu golfvöllum Bretlands.
Covid hafði mikil áhrif
Þegar takmörkunum var aflétt kom golf fljótt fram sem ein fyrsta íþróttin sem fólk gat stundað á öruggan hátt. Þátttaka jókst hratt, félagatöl stækkuðu og rástímar fylltust. Vellir sem áður treystu að miklu leyti á vallargjöld frá gestum nutu skyndilega fordæmalausrar eftirspurnar frá heimamönnum.
Þessi eftirspurn minnkaði ekki eftir Covid. Á meðan þátttaka í sumum íþróttum dalaði aftur hélt golf í flesta af nýju félögunum. Niðurstaðan? Færri lausir rástímar og minni þörf á afsláttum. Grunnlögmál hagfræðinnar tóku yfir: Eftirspurn jókst mikið, framboð hélst óbreytt og vallargjöldin ruku upp.
Þegar klúbbar áttuðu sig á að þeir gátu rukkað meira án þess að missa viðskiptavini breyttist verðlagningin. Verð sem áður hefði þótt djarft að birta varð hið nýja eðlilega verð.
En málið enn áhugaverðara.
Verð og skynjun
Til er vel þekkt hugtak sem kallast Veblen-áhrif og lýsir því hvernig fólk skynjar oft dýrari hluti sem eftirsóknarverðari einmitt vegna þess að þeir kosta meira. Verð verður merki um gæði, stöðu og sérstöðu. Á lúxusmörkuðum dregur hærra verð ekki úr eftirspurn – það styrkir hana.
Golf, sérstaklega í hæsta gæðaflokki fylgir sömu lögmálum.
Ferðamenn knýja stóran hluta eftirspurnar á frægustu völlum Bretlands og Írlands. Margir erlendir gestir leggja leið sína á einn eða tvo fræga velli og leita síðan að öðrum völlum í nágrenninu til að fylla dagskrána. Vandinn er sá að það er almennt erfitt að meta gæði golfvallar út frá heimasíðu klúbbsins. Allir lofa „glæsilegu útsýni“ og „fullkomnum flötum“. Hvernig ákveða gestir þá hvaða vellir eru þess virði að leika?
Þeir horfa á verðið.
Völlur á 9.000 kr., hversu góður sem hann er, er auðveldlega afskrifaður. Völlur á 45 til 55.000 kr eða hlýtur hins vegar að vera sérstakur – eða svo segir rökhugsunin. Verðið verður flýtileið að mati á gæðum. Klúbbar vita þetta og verðleggja í auknum mæli í samræmi við það.
Hærri gjöld fæla ekki endilega kylfinga frá. Fyrir marga gesti, sérstaklega þá sem ferðast langar vegalengdir, skipta 10 eða 20.000 kr aukalega litlu máli miðað við kostnað við flug, hótel og bílaleigu. Raunar getur hærra verð verið heillandi. Það staðfestir að þeir hafi valið stað sem er „þess virði“. Þetta er stóra golfferð ársins, og þá er betra að borga aðeins meira en að hætta á að eyða degi á velli sem veldur vonbrigðum.
Viðburðir eins og The Open auka þessi áhrif enn frekar. Vellir í nágrenninu munu alltaf nýta sér slík tækifæri og frá viðskiptalegu sjónarmiði er það fullkomlega rökrétt. Eftirspurn eykst og verðið fylgir í kjölfarið.
Tekjur af vallargjöldum í sögulegu hámarki
Tölurnar styðja þetta. Tekjur af vallargjöldum í Bretlandi hefðu nýlega náð sögulegu hámarki. Eftir könnun hjá 202 klúbbum víðs vegar um Bretland og Írland kom í ljós að meðaltekjur af vallargjöldum voru yfir 30 milljónir kr. árið 2024 – 11% hækkun frá síðustu 12 mánuðum þar á undan.
Eftirspurnin á bestu völlunum er að mestu leyti knúin af Bandaríkjamönnum. Ef dollarinn veikist verða slíkar ferðir skyndilega dýrari. Og ef neysla í Bandaríkjunum dregst saman vegna efnahagslegrar eða pólitískrar óvissu gætu sumar þessara „einu sinni á ævinni“ ferða ,farið á bið.
Í millitíðinni er sannleikurinn sá að vallargjöld snúast ekki lengur eingöngu um að standa straum af kostnaði. Þau eru markaðstæki – leið til að staðsetja völl innan lúxusveldis golfíþróttarinnar.
Svo lengi sem kylfingar halda áfram að leggja að jöfnu verð og virðingu – og svo lengi sem eftirspurnin eftir Covid helst sterk – virðast hækkanir halda áfram. Raunverulega spurningin er ekki hvort 70.000 kr séu réttlætanlegar heldur hversu langt vallargjöld geta hækkað áður en íþróttin verðleggur í kyrrþey út þá kylfinga sem hjálpuðu til við að kynda undir ótrúlegum vexti golfsins í upphafi.
Golf blómstraði eftir Covid með því að vera opið öllum. Það væri undarlegt ef stærsta uppsveifla í sögu íþróttarinnar endaði á því að hefta aðgengi að bestu völlunum aftur - að þessu sinni ekki vegna lokana, heldur vegna verðs.
Margeir Vilhjálmsson.


