Þrjár nýjar holur munu gleðja augað
Svarfhólsvöllur á Selfossi verður orðinn átján holu völlur árið 2026.
„Þegar völlurinn okkar verður orðinn átján holu völlur, hef ég þá trú að hann verði með þeim fallegri á landinu, sérstaklega munu þrjár nýjar holur gleðja augað,“ segir Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss (GOS).
Hlynur tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 2010. „Þegar ég byrjaði í golfi á Selfossi, var ekki mikil virkni í klúbbnum yfir vetrartímann. Ég byrjaði fljótt að kenna og gat þá komið mér inn í einhver iðnaðarhúsnæði og var á miklum hrakhólum allt til ársins 2017 þegar við fluttum inn í Gagnheiðina. Þar náðum við að búa til fína inniaðstöðu, vorum með góða púttflöt og settum á púttmótaröð alla laugardagsmorgna yfir veturinn. Samhliða því var fólk auðvitað að mæta í golfherminn en svona inniaðstaða er lífsnauðsynleg fyrir golfklúbba til að vaxa og dafna.
Árið 2017, eftir áramót, byrjaði ég svo með þriggja mánuða námskeið þar sem fólk var í tíu til fimmtán manna hópum að gera hinar og þessar golfæfingar. Þetta mæltist mjög vel fyrir og öll virkni í klúbbnum varð ennþá meiri. Svo urðu þáttaskil þegar við opnuðum nýja og glæsilega aðstöðu við golfvöllinn og í dag erum við með fjóra golfherma sem eru meira og minna fullnýttir allan veturinn. GOS-arar hittast áfram á laugardagsmorgnum og pútta, fá sér kaffi og ræða um öll heimsins mál svo ég myndi segja að staða klúbbsins sé mjög góð í dag. Gaman frá því að segja að þessi inniaðstaða var meira og minna öll reist af félagsfólki en margir klúbbmeðlima eru smiðir og sjálfur er ég lærður húsasmiður. Gaman að sjá hvað félagsandinn eflist þegar fólk tekur svona höndum saman og því þurfti ekki að koma á óvart þegar glæsilegt æfingaskýli var sömuleiðis reist en við vígðum það árið 2022. Ekki nóg með það heldur tóku nokkrir heldri kylfingar GOS sig til og smíðuðu ræsingarskúr og mér var vinsamlegast harðbannað að skrúfa eina einustu skrúfu!“
Ný framtíð á Svarfhólsvelli
Golfvöllur Selfyssinga heitir Svarfhólsvöllur, hefur alltaf verið níu holur, er þannig í dag en strax á næsta ári stækkaði hann í fjórtán holur og verður orðinn átján holu golfvöllur árið 2026.
„Þegar Vegagerðin kynnti áform sín um nýja Ölfusárbrú í kringum 2016, varð ljóst að Svarfhólsvöllur myndi finna fyrir því þar sem nýja brúin tekur í burtu gamla annað og þriðja grínið okkar. Við fórum á fund með Vegagerðinni og mjög vel var tekið í okkar erindi og við fengum myndarlegan styrk til að gera nýjar holur í staðinn fyrir þær sem var fórnað. Það lá beinast við að fara strax í stækkun og fengum við Edwin Roald, golfarkitekt til að hanna stækkun upp í átján holur. Svo skemmtilega vildi til að framkvæmdir við nýjan miðbæ Selfoss voru að hefjast og þurfti að grafa upp mikið af jarðefni sem við gátum nýtt í stækkun vallarins. Hlutirnir hafa einhvern veginn fallið með okkur og ég hef þá trú að þegar völlurinn verður orðinn átján holu völlur árið 2026, að fáir vellir verði álitnir fallegri. Það eru sérstaklega þrjár holur af þessum nýju sem eiga eftir að líta dagsins ljós, sem verða einstaklega fallegar. Ég hlakka mikið til þegar völlurinn verður tilbúinn. Það er fátt sem toppar það að leika golf við niðandi Ölfusána,,“ segir Hlynur.
Úr boltanum í golf
Hlynur segist ekki hafa snert á golfkylfu fyrr en um átján ára aldurinn. „Ég æfði og spilaði fótbolta á fullu, var hægri bakvörður og held ég hafi verið ansi frambærilegur.
Ég spilaði með Selfoss í yngri flokkum, en með KR í 3. og 2. flokki og fór síðan heim og náði tveimur árum með meistaraflokki Selfoss en var alltaf meiddur eða í leikbanni, þráðurinn minn var ansi stuttur. Allur minn fókus og tími fór í fótboltann og þess vegna var ég ekkert að spá í golfi. Prófaði svo þegar ég var átján ára en ég byrjaði má segja ekki í golfi fyrr en ég var orðinn tvítugur en þá fór ég líka „all in!“ Ég er pottþétt nett fanatískur, þegar ég byrja á einhverju þá kann ég ekkert nema bara fulla ferð. Ég náði strax mjög góðum tökum á golfinu, fór niður fyrir tíu í forgjöf fyrsta heila sumarið mitt og var orðinn klúbbmeistari GOS þremur árum seinna. Ekkert löngu síðar var ég kominn á íslensku Stigamótaröðina en ofmat væntanlega eigin getu til að byrja með, var venjulega með þeim neðstu á fyrstu mótunum en þá var ekkert annað í stöðunni en bara æfa meira. Ég varð Stigamótsmeistari GSÍ árið 2008, 2010 og 2012 og keppti mikið. Ég náði hæst í 3. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og Íslandsmeistari í Holukeppni 2008, síðustu árin hefur afreksgolfið dalað aðeins hjá mér. Ég hef alltaf verið að kenna mikið og það, að reka klúbbinn, veitingasöluna og allt tengt starfsemi golfklúbbsins tekur sinn toll og ég hafði einfaldlega ekki þann tíma sem þurfti til að æfa almennilega. Ég hef mætt á síðustu Íslandsmót og gaman frá því að segja, á því síðasta sem haldið var í Vestmannaeyjum í fyrra, tókst mér loksins að ná draumahögginu! Í æfingahring fyrir mótið, náði ég þessu loksins á 17. holunni í Vestmannaeyjum, ég sá boltann fara ofan í en hafði svo oft lent í því að boltinn færi ofan í, aftur upp úr, farið í stöngina og ég veit ekki hvað og hvað, var viss um að kúlan hlyti að hafa skondrast upp úr. Það var góð tilfinning að sjá hana ofan í holunni.“
Ætlar að stríða þeim bestu
„Sem betur fer get ég farið að slaka aðeins á í kennslunni, ég er búinn að ala upp tvo frábæra kennara, þau Arnór Inga Hlíðdal og Alexöndru Eir Grétarsdóttur og munu þau sjá um unglinga- og nýliðakennsluna ásamt einkakennslu. Ég verð bara með afrekskylfingana okkar og því sé ég fyrir mér að hafa meiri tíma fyrir mitt eigið golf og fjölskyldu í sumar. Hver veit hvert það muni skila mér, ég er venjulega fljótur að komast í form og ef ég get lagt stund við æfingar, hef ég fulla trú á að ég geti velgt þeim bestu undir uggum í sumar,“ sagði Hlynur Geir að lokum.
Ein af nýjum brautum á Svarfhólsvelli.
Hlynur með nokkrum GOS félögum í golfi í útlöndum.