Gömlu handboltakempurnar elska golfið
Uppaldir Þróttarar halda hópinn
„Ég er örvhentur og örvhent golfsett var miklu dýrara á sínum tíma svo ég lærði bara að spila rétthent,“ segir fyrrum landsliðsmaðurinn í handknattleik, Sigurður Valur Sveinsson, eða Siggi Sveins eins og þjóðin þekkir hann betur. Hann var staddur í Borgarnesi á dögunum með gömlum félögum úr Þrótti, m.a. öðrum fyrrum landsliðsmanni, Páli Ólafssyni.
Það var lítið um golf í Vogahverfinu þegar Siggi og Páll voru að alast upp, boltaíþróttir áttu hug þeirra allan og handboltinn varð þeirra aðalgrein en Páll spilaði líka knattspyrnu.
Siggi byrjaði á að rifja upp hvernig golfáhuginn byrjaði.
„Ég tók ekki upp golfkylfu fyrr en í kringum 1990, þá orðinn 31 árs gamall. Ég náði að teygja handboltaferilinn til 2001, var alltof lengi myndu sumir segja og má segja að það hafi verið Páli vini mínum að kenna, hann tók við liði HK á eftir mér en ég hafði verið spilandi þjálfari, var hættur að spila en lét Palla plata mig og m.a. spilaði ég bikarúrslitaleik. Palli gerði þau reginmistök að láta mig ekki inn á fyrr en í seinni hálfleik og þá bombaði ég sjö skotum inn, í mínum huga augljóst að við hefðum unnið bikarinn þetta ár ef Páll hefði látið mig spila meira!
Eitthvað togaði í mig að prófa golfið og þar sem ég er örvhentur hefði auðvitað verið ákjósanlegra að byrja með örvhent sett en það var miklu dýrara á þessum tíma, ég byrjaði því bara með rétthent og úr því sem komið er fer ég varla að breyta því. Svona hafa margir þeirra bestu gert þetta, t.d. Phil Mickelson, hann er rétthentur en spilar örvhent. Ég komst lægst í 12,5 í forgjöf en tveimur hnjáliðum og einni nýrri mjaðmakúlu síðar, sé ég ekki fram á að komast svo lágt aftur, er í rúmum 19 í dag en ég er ekki í golfi til að ná árangri, ég er í þessu til að hafa gaman og skemmta mér og það gengur framúrskarandi vel!“
Tveir A-landsleikir í knattspyrnu og urmull landsleikja í handbolta
Páll hafði eitthvað slegið á túnum í gamla daga en byrjaði annars um svipað leyti og handboltabróðir sinn.
„Ég prófaði þetta eitthvað sem gutti en aldrei þannig að ég væri að spila, aðrar íþróttir áttu hug minn allan þá. Ég prófaði þetta í Mosanum (Mosfellsbær) þegar klúbburinn hét GKJ en svo sameinaðist hann Bakkakoti og varð Golfklúbbur Mosfellsbæjar. Ég ólíkt Sigga spilaði líka fótbolta, lék lengi með meistaraflokki Þróttar og á meira að segja tvo A-landsleiki í knattspyrnu. Á þessum tíma var ekki tími fyrir golf og það var ekki fyrr en ég snéri heim úr atvinnumennsku að ég byrjaði á fullu í golfi. Ég prófaði þetta aðeins þegar ég spilaði handbolta í Þýskalandi, flutti svo heim 1988 og byrjaði af krafti ári síðar ef ég man rétt. Það ber líka að hafa í huga að golfið var ekki eins algeng íþrótt á þessum tíma og það er í dag, það virðast allir vera í golfi í dag!
Ég sá lægst 5,9 í forgjöf en skrokkurinn er ekki nógu góður í dag, ég er með rúma 12 í dag, hef ekki farið svo hátt í u.þ.b. 30 ár. Ég var lengi í kringum 10 en þegar skrokkurinn er ekki upp á sitt besta er erfitt að spila sitt besta golf, ég hef hins vegar alltaf jafn gaman af þessari íþrótt. Félagsskapurinn í kringum þetta er frábær, við erum nokkrir æskuvinir úr Þrótti sem höfum bæði borðað saman í hverju hádegi á miðvikudögum í fjölda ára, og spilum alltaf golf alla miðvikudaga, sama hvernig viðrar. Við köllum okkur „Þrettán þreyttir Þróttarar,“ erum reyndar bara ellefu í dag þar sem tveir góðir félagar hafa kvatt. Við höfum farið í golfferðir, konur sumra okkar eru komnar í golfið líka en okkur félögunum finnst líka gaman að geta farið saman, einn okkar á hús á Florida, við höfum farið þangað og fórum til Póllands í fyrra. Við setjum stefnuna eitthvert í haust og verður spennandi að sjá hvaða land verður ofan á, við hlökkum mikið til,“ sagði Páll að lokum.