Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Viðtal

Nú kaupir enginn golfsett beint úr hillunni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 4. júní 2024 kl. 11:49

Nú kaupir enginn golfsett beint úr hillunni

„Miklar breytingar og mikil aukning,“ segir Rafn Stefán Rafnsson í Örninn golfverslun

„Golfverslun hefur breyst mjög mikið á síðustu árum. Núna kaupir fólk golfsett ekki nema að vera búið að fara í mælingu áður, eitthvað sem þekktist ekki fyrir ekki svo löngu síðan. Þjónustustigið hefur breyst samhliða og er allt annað í dag en þegar ég var hóf störf fyrir tveimur áratugum og þá hefur búnaðurinn líka þróast mjög mikið. Þróunin hefur í raun verið mögnuð,“ segir Rafn Rafnsson, verslunarstjóri í Erninum, golfverslun sem nýlega flutti í Faxafen 8 í Reykjavík.

Jón Pétur Jónsson, fyrrverandi handboltajaxl úr mulningsvél Vals er eigandi Arnarins en hann og Jóna kona hans reka tvær aðrar verslanir í Faxaafeni 8, Örninn - reiðhjólaverslun og Fífuna, eina stærstu barnavöruverslun landsins. Við flutninginn golfverslunarinnar sem var síðast á Bíldshöfða, í Faxafen, við hlið hjólabúðarinnar varð því til nokkurs konar Arnarhreiður í nóvember á síðasta ári. 

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Rafn eða Rabbi er hins vegar aðal gaurinn í golfbúðinni og kylfingur.is hitti kappann til að taka púlsinn á golfíþróttinni í dag og búnaðinum sem við kylfingar notum, kylfur, bolta, kerrur og allt hitt. 

25% betri árangur eftir mælingu

Rabbi hóf störf í Nevada Bob árið 2004 en Jón P. keypti verslunina tveimur árum síðar og Rabbi fylgdi með. Hann segir að það sé sjaldgæft í dag að fólk komi í búðina og kaupi „tilbúið“ golfsett úr hillunni en það er þá helst byrjendasett. „Þetta er stærsta breytingin sem hefur orðið á undanförnum áratugum. Áður fyrr kom fólk í búðina og keypti golfsett án þess að prófa kylfurnar. Nú koma nær allir í kylfu-mælingu (club fitting). Það hefur líka sýnt sig að það er mjög mikilvægt. Fólk er mislangt komið í íþróttinni og einnig bara misjafnt í hæð og þyngd og svo er stór munur á körlum og konum. Því skiptir mál hvernig kylfur eru, stífleiki skafta, þyngd og lengd og svo er fólk með misjafnan íþróttalegan bakgrunn. Þetta sést mjög greinilega þegar t.d. konan tekur upp kylfur eiginmanns. Munurinn er mjög mikill. Þær fá auðvitað búnað við sitt hæfi. Það hefur sýnt sig að það getur munað 25% í árangri að fara í mælingu. Þetta hefur auðvitað haft miklar breytingar í för með sér. Þjónustan er orðinn miklu persónulegri. Hver afgreiðsla er þannig miklu lengri en líka persónulegri en er það ekki bara eðlilegt, að maður gefi sér góðan tíma í að kaupa búnað fyrir eitthvað sem maður notar mikinn tíma í.“

Rabbi segir að afgreiðslurnar séu auðvitað mismunandi. En nær þetta yfir alla kylfinga að koma í mælingu, jafnt byrjendur sem lengra komna?

„Já, ekkert síður fyrir byrjendur. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fá rétta búnaðinn, réttu kylfurnar. En það koma ekki allir og kaupa allt, sumir byrjendur koma og fá lánaðar tvær kylfur, fara til kennara og prófa. Það eru fleiri þættir sem hafa haft áhrif á þetta. Margir byrjendur fara í golfkennslu í golfferðum í útlöndum og koma svo eftir ferðina og fara í mælingu. Eins hafa golfhermarnir haft áhrif hvað þetta varðar. Þeir hafa líka lengt golftímabilið á Íslandi mikið.“

Átta dræverar prófaðir

Rabbi segir að í raun sé hægt að byrja með tvær kylfur sem meira að segja er hægt að fá lánaðar til að prófa og fara í byrjendakennslu. En ef maður vill fara alla leið og byrja á því að kaupa golfsett, hvað er verið að tala um í krónum og aurum þá? 

„Þetta er svona frá tvöhundruð þúsund krónum og uppúr,“ segir Rabbi sem er nettur golfnörd. „Áður en við byrjuðum á mælingunum hér á árum áður var ég heltekinn af því t.d. að prófa alla drævera, hver hentaði mér best. Ég notaði átta drævera eitt sumarið. Ég fór í allar búðir og prófaði öll merkin. Í dag er þetta bara afgreitt á stuttum tíma í mælingu.“

Rabbi telur ekki ólíklegt að hann hafi verið fyrstur til að bjóða upp á kylfingumælingar fljótlega eftir að hann hóf störf í Nevada Bob. „Þróunin var hafin í þessu og mér fannst þetta vanta hjá okkur. Við fengum einhverja græju í þetta og í framhaldinu var ég var fastur í mælingum í búðinni frá klukkan tíu til sex næstu mánuði. Nú er þetta bara málið, orðið risastórt og meira að segja tekið fyrir í PGA golfnáminu.“ 

Rabbi er sjálfur PGA menntaður en hefur líka náð sér í margvíslega þekkingu í gegnum starfið í öll þessi ár. Hann segir að þróunin hafi verið mikil hjá framleiðendum og nú sé algengt að biðtími eftir sérpöntun sé ekki nema tvær vikur. 

Hljóðið skiptir máli

Þegar nördinn Rabbi er spurður út í þróunina í kylfum segir hann hana hafa verið mjög mikla og kylfur séu miklu meira „fyrirgefandi“ en í gamla daga. Hversu skrýtið sem það kann að hljóma þá er hljóðið sem kemur þegar bolti er sleginn til dæmis stórt atriði. „Framleiðendur PING tóku það atriði lengra í nýjustu kylfingunum og huguðu sérstaklega að því. Það er sérstakt með hljóðið að það hefur mikil áhrif á upplifunina þegar maður slær, það er talið að það sé helmingur upplifunarinnar.“

Öll stærstu merkin

Rabbi segir aðspurður að öll stærstu merkin í golfinu séu í boði í Erninum en er eitthvað merki stærst í dag?

„Þetta eru nokkur merki sem eru vinsælust. Hjá okkur er það TaylorMade en það ræðst líka af því að framleiðandinn stendur sig best í þjónustu. Auk TaylorMade má nefna PING, Callaway, Srixon, Titleist, Mizono og Cleveland. Þetta eru allt gæðamerki.“

Margnefnd þróun í golfheiminum hefur náð í alla anga. Golfkerrur hafa breyst mikið og vinsældir rafmagnskerra hafa rokið upp á síðustu árum. Þá er Örninn með umboð fyrir Club Car golfbíla og það er sama sagan þar. Mikil aukning og fleiri að kaupa sér golfbíla sem líklega má tengja að hluta til þess að kylfingum yfir miðjan aldur hafi fjölgað mest. 

Ekki spara í golfboltum

En Rabbi, hvað með golfboltana, fljúga þeir ekki lengra en í gamla daga?

„Jú, en ég vil hvetja kylfinga til að huga vel að þessum þætti. Stærstu mistökin sem margir gera er að spara við sig í golfboltum. Við erum með um fimmtíu tegundir en þar skiptir máli að finna góðan bolta sem maður er með góða tilfinningu fyrir. Það er mikið atriði að vita hvernig boltinn flýgur þannig að þú getir stólað á það varðandi lengdarstjórnun, að hún sé stöðug. En almennt er það þannig að harðari boltar gefa meiri boltahraða. Þá erum við ekki bara að tala um flugið heldur líka atriði eins og bakspuna, hvernig boltinn lendir t.d. á flöt.“

Mikilvægasta kylfan í pokanum

Þegar Rabbi er spurður út í hvar kylfingar geta sparað flest högg þá er hann ekki í nokkrum vafa. „Það er auðvitað pútterinn sem þú notar mest og er skemmtilegasta kylfan í pokanum. Það er kylfan sem getur haft mest áhrif á skorkortið þitt,“ segir okkar maður og bætir við að þar eins og víðar hafi þróunin orðið gríðarmikil á síðustu tuttugu árum. „Ég man t.d. eftir því þegar „White hot Two ball“ pútterinn frá Odyssey kom á markaðinn. Það varð allt vitlaust. Síðan hafa fleiri ofur vinsælir pútterar komið á markaðinn eins og t.d. „Spider“ kom frá TalorMade.“

Það hefur orðið mikil fjölgun í golfíþróttinni á Íslandi og þegar við spyrjum Rabba út í það segir hann að ein ástæðan sé sú að golf hafi verið gott sport í heimsfaraldri. „Golf var hentugt sport í Covid-19. Aukningin varð gríðarleg. Þá prófuðu margir golf í fyrsta skipti og féllu síðan fyrir íþróttinni. Svo er annað að golf er ódýrt þegar allt er skoðað. Það er kannski smá fjárfesting í upphafi en síðan er golf mjög ódýrt sport, ekki síst þegar það er skoðað hvað maður notar margar klukkustundir í því. Það hefur verið mikil og stöðug aukning hjá okkur og við höfum þurft að fjölga starfsmönnum verulega hér í búðinni bara á milli ára.“

Komst ekki í Íslandsmótið

Rabbi er lágforgjafarkylfingur og með PGA kennararéttindi og hefur farið lægst í 0,2 í forgjöf en er með um 2 í dag. „Ég byrjaði í golfi þegar ég var fjórtán ára. Pabbi dró mig og bróður minn út á golfvöll. Við lékum okkur á Korpunni þegar hún var tólf holur. Ég var nú bara með 8 eða 9 í forgjöf þegar ég byrjaði að starfa í golfgeiranum en lækkaði hratt. Ég keppti í nokkur ár á íslensku mótaröðinni og hafði gaman af en ég komst ekki inn í Íslandsmótið í golfi í fyrra, mig vantaði aðeins upp á. Tveir í forgjöf dugðu mér ekki til að komast í mótið. Þeir eru orðnir góðir þessir ungu menn í dag og ég hef ekki tíma til að æfa meira til að ná þeim.“