Viðtal

Fór tvisvar holu í höggi í fyrra
Skarphéðinn eftir draumahöggið á Costa Ballena.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 7. maí 2024 kl. 16:36

Fór tvisvar holu í höggi í fyrra

Alla kylfinga dreymir um að ná draumahögginu, margir komast grátlega nærri því en ná því aldrei en svo eru sumir sem fá að upplifa þessa gleði tvisvar sinnum á sama árinu. Skarphéðinn Egill Þórisson er ungur og bráðefnilegur kylfingur í Nesklúbbnum á Seltjarnarnesi, ekki nóg með að hann hafi náð holu í höggi á Spáni í mars í fyrra, hann endurtók svo afrekið á Nesvellinum í september!

„Ég er þrettán ára, að verða fjórtán. Ég tók miklum framförum í fyrra og lækkaði úr tæpum 18 niður í 8 í forgjöf og takmarkið í sumar er að komast niður í 5,4 svo ég geti spilað í meistaraflokki í meistaramóti. 

Ég byrjaði í golfi þegar ég var sjö ára gamall, fór þá á námskeið í GKG. Það var gott að læra strax réttu handtökin og þegar ég var orðinn tíu ára gamall fór ég að æfa og spila mun meira. Þá var ég með 30 í forgjöf en síðustu tvö sumur hef ég tekið miklum framförum. Ég hef leikið af aftari teigunum undanfarin ár og hef tekið miklum framförum, tel raunhæft að ég nái niður í þessa meistaraflokksforgjöf í sumar. Ég á tvö ár eftir í grunnskóla svo ég hef nægan tíma til að ákveða hvað ég ætla mér þegar ég verð eldri en gaman yrði að komast í háskólagolfið í Bandaríkjunum. Þangað til ætla ég að halda áfram að bæta mig og hafa gaman af því að spila golf.“

Skarphéðinn upplifði draum golfarans tvisvar sinnum á síðasta ári.

„Ég fór í æfingaferð með Nesklúbbnum til Costa Ballena á Spáni í mars í fyrra. Þessi ferð er fyrir alla, margir fóru í golfskólann sem ég mæli með fyrir alla. Ég gat æft mig vel og spilaði mikið. Draumahöggið kom á Costa Ballena vellinum, á þriðja vellinum má segja því hann er 27 holur. Þetta gerðist á síðasta parti vallarins, 19-27. holu, n.t. á holu 25 sem er 108 metra löng. Það var mjög góð tilfinning að sjá boltann lenda og rúlla ofan í holuna, ég trúði varla mínum eigin augum og ekki skemmdi fyrir að allir þjálfararnir voru í hollinu fyrir framan, m.a. þjálfarar frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar og urðu vitni að högginu. 

Ég spilaði mjög vel síðasta sumar og lækkaði stöðugt í forgjöf og var vel heitur þegar ég náði þessu svo aftur í september, á heimavellinum á Nesvellinum. Þetta gerðist tveimur dögum eftir að ég tók þátt í Einherjamótinu, það var auðvitað magnað að ná þessu aftur og eigum við ekki að segja að ég stefni á að fara þrisvar sinnum holu í höggi í sumar, nei ég er að djóka. Markmiðið er bara að halda áfram að bæta mig og auðvitað er það alltaf þannig að þeir betri eiga meiri möguleika á að ná draumahögginu en það er kannski ekki sanngjarnt að ég nái þessu oftar,“ sagði þessi efnilegi kylfingur að lokum.

Seinni holan í höggi, á Nesvellinum.

Flott aftursveifla hjá þessum efnilega kylfingi.