Kylfukast

Ýsuflök á golfvellinum
Miðvikudagur 23. september 2009 kl. 21:53

Ýsuflök á golfvellinum

Það er kominn tími til að kasta kylfum á ný eftir frábært golfsumar. Við fengum sem betur fer að njóta frábærs golfsumars og helsta umkvörtunarefnið á höfuðborgarsvæðinu var að ekki væru til nógu margir rástímar.

Það kom svo sem ekki á óvart að eftir um 8 vikna þurrk í júní og júlí fóru að detta dropar úr lofti í ágúst. Það hefur nánast rignt síðan að manni finnst en samt sem áður hefur verið nóg af góðum golfdögum. En nú er farið að hausta. Því miður finnst mér þá einhvern veginn eins og kylfingar skipti um gír. Ég hef náð að leika á ýmsum völlum nú á haustdögum og er gapandi hissa yfir umgegninni á golfvöllunum.  Golfbrautir eru fullar af því sem ég kýs að kalla "ýsuflök" en það eru torfusneplar sem eru í orðsins fyllstu merkingu á stærð við ýsuflök.  Sárin í brautunum eru stór. Ekki skánar það þegar komið er inn á flatirnar en jafnvel stutt vipp inná flatirnar skilja eftir sig boltaför.  Ég velti því fyrir mér hvort kylfingar tapi sjón þegar haustar kannski líkt og birnir leggjast í hýði.  Hvernig geta torfuförin á brautunum og boltaförin á flötunum farið framhjá fólki?  Ég stend mig að því að setja niður 5-10 torfusnepla á braut og laga sama magn af boltaförum. Sætta mig svo við það að ef ég eigi að halda uppi leikhraða verði ég að velja að halda áfram golfleik frekar en viðgerðum.

Þetta ástand er óásættanlegt og kylfingum til háborinnar skammar. Þegar vellirnir blotna á haustin verður allt mun viðkvæmara. Torfuförin verða líka dýpri og flatirnar mýkri. Svo er það þetta með að raka eftir sig glompurnar. Eru hrífurnar ósýnilegar? 

Kannski er þetta bara ímyndun í mér. Umgengnin er í raun ekkert verri á haustin, vegsummerkin eru bara gleggri. Ef það er staðreynd þá erum við í miklum vanda.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson