Upphitun á K-Club
Golf hefur verið mikið í heimsfréttunum undanfarnar vikur, akkúrat þegar tímabilið er í mestri lægð. Þökk sé frægasta kylfingi heims og þessari stórglæsilegu konu (sjá mynd). Það hefur komið í ljós að þrátt fyrir að hafa verið giftur í 5 ár, hefur hann stundað púttæfingar á öðrum völlum af mikilli elju.
Þetta kann að koma sumum mjög á óvart, en líferni Tígursins fyrir brúðkaup var einkar líflegt, svo ekki sé meira sagt. Rétt eftir aldamótin síðustu kom hingað til lands vallarstjóri K-Club á Írlandi. Hann sagði okkur nokkrum þá að Mr. Woods kæmi ávallt á K-Club til að hita upp fyrir Opna breska mótið. Hann kæmi u.þ.b. viku til 10 dögum fyrir mót. Á staðnum væri þyrla sem flygi með hann á alla bestu strandvelli Írlands og þar æfði hann sig allan daginn. Þetta væri þó ekkert merkilegt. Það sem væri sannanlega merkilegt væri að honum fylgdu tvær atvinnumanneskjur, ekki í golfi, heldur.... ja segjum að þær hafi séð um æfingaprógrammið eftir að hann kom heim úr golfi. Sögunni fylgdi að hvor þeirra rukkaði $5.000 fyrir daginn. Já, sæll.
Við munum öll að þessi frábæri kylfingur lék afar illa í einu móti síðastliðið sumar. Það var á Opna breska á Turnberry. Fréttir í Bandaríkjunum benda til þess að þá þegar hafi verið komnir brestir í hjónabandið, því samkvæmt heimildum voru unnar innanbúðar skemmdir á húsinu sem Tiger og fjölskylda leigðu yfir mótið fyrir um 2 milljónir króna. Það má vel vera að hin raunverulega ástæða hafi verið sú að hann saknaði gamla undirbúningsprógrammsins á K-Club. Tiger hefur ekki unnið Opna breska síðan 2006.
Það er nú því miður þannig fyrir golfíþróttina að hún gæti orðið fyrir töluverðu höggi á heimsvísu vegna þessa máls. Af hverju? Það er vegna þess að Tiger Woods er eini kylfingurinn sem er sannanlega "heimsfrægur". Ekki nóg með það í dag er hann tekjuhæsti íþróttamaður heims og sá frægasti. Næsti golfari er bara ekki á listanum. Sorrý. Yfirburðir Tiger og markaðsvirði hans sýndu sig best í Ástralíuheimsókninni nú í haust. Hann fékk $3m fyrir að mæta í mótið. Hann náttúrlega vann líka. Gróft mat sýndi að þeir sem stóðu fyrir mótinu fengu $20m í vasann til baka, eingöngu vegna þátttöku hans.
Hvernig sem þessu leiðindamáli lýkur, þá verður það mjög sorglegt fyrir golfsöguna ef eltingaleik Tiger Woods við fjölda risatitla Jack Nicklaus endi með því að Tiger fái frávísun vegna þess að hann lék of oft á röngum velli.