Tilbúnir til útflutnings undir enskum nöfnum II
Ég vil þakka lesendum kylfings.is fyrir áhugaverða umfjöllun um fyrri hugleiðingar mínar undir sama nafni. Af því tilefni finnst mér ágætt að halda áfram með umræðuefnið. Einhverjir virðast hafa áhyggjur af því hvaða pláss útlendingar komi til með að taka á völlunum. Það er skiljanlegt, þar sem klúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu eru yfirfullir. Þessir vellir hafa jafnframt bestu aðstöðuna. En að mínu mati eru þetta klúbbar sem eiga ekkert að vera gera út á golf og ferðamennsku, nema rétt til að fylla einhverja illa nýtta morguntíma. Ef þeir eru þá einhverjir einhverjir eftir. Klúbbar sem eru yfirfullir af meðlimum eiga fyrst og fremst að sinna sínum meðlimum. Annaðhvort svo að loka völlunum fyrir utanaðkomandi, eða hækka verulega vallargjöld. Mér hefur alltaf þótt það gott viðmið að fullt vallargjald eigi að vera 10% af hæsta félagsgjaldi.
En þá aftur að ferðamennskunni. Það eru 10 – 12 klúbbar með 18 holu velli sem þurfa verulega að bæta aðstöðuna hjá sér. Það hefði verið mjög klókt að í skýrslu Peter Walton kæmi ítarlega fram hvað hver og einn klúbbur þyrfti að laga til að geta flokkast undir að vera „export ready“. Skýrsluna hefði svo mátt nota til að ýta á sveitarfélög til taka þátt í að bæta aðstöðu golfklúbba í sinni byggð. Ekki ólíkt því þegar KSÍ flaggaði hér fyrir nokkrum árum að samkvæmt reglum UEFA yrðu allir vellir liða í efstu deild að hafa stúkur með sætum. Takk fyrir. Hvernig var brugðist við? Innan 3 ára voru allir vellir í efstu deild komnir með stúkur. Þær eru yfirleitt hálfsetnar, en hvaða máli skiptir það? Haukar í Hafnarfirði þurfa að uppfylla þessi skilyrði fyrir næsta leiktímabil. Við skulum fylgjast með hvort að þeir endist lengi í Kaplakrikanum. Mig grunar allavega að Óli Þór vinur minn og Keilisvallarstjóri muni ekki verða par hrifinn af því að sjá lið í rauðum búningum leika heimaleik í Krikanum.
Golfsambandið hefði getað notað skýrsluna til að aðstoða klúbba við að beita sveitarfélögin þrýstingi um að bæta aðstöðuna. Gott dæmi þessu tengt er að ég var í sumar einn umsjónarmanna í alþjóðlegu unglingamóti sem haldið var á Hellu, Icelandic Junior Masters. Mótið tókst í alla staði gríðarlega vel og var mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku á Suðurlandi . Um leið og sveitarfélögunum var tilkynnt um hvað stæði til voru þau um leið tilbúin að leggja fram peninga til að setja bundið slitlag á bílastæðið við golfskálann á Strönd eitthvað sem reynt hafði verið að fá í gegn í mörg ár. Þetta er bara eitt lítið dæmi um hvernig hægt væri að nota skýrslu sem skrifuð væri á gagnrýninn hátt, búa til þrýsting til að fá aðstöðuna bætta. Ferðamennska hefur nefninlega mikil margföldunaráhrif og það er talað um það að taka megi þá fjárhæð sem kylfingurinn eyðir í golf og margfalda með a.m.k. 5, til að fá út hversu miklum peningum hann eyðir í annað og annars staðar meðan á dvölinni stendur. Hér eru vallargjöld reyndar svo ódýr m.v. gistingu að líkast til væri nær lagi að tala um 10.
Ég tel að erlendir ferðamenn muni fyrst og fremst heillast af völlum þar sem þeir eru nánast til einir að leika golf. Það verður stór hluti af upplifuninni. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur erlendur ferðamaður muni heillast af því að fara út kl. 16:30 á fimmtudegi á stöppuðum velli í Oddi, Keili eða Grafarholti. Sóknarfærin í ferðamennskunni eiga fyrst og femst að vera fyrir aðra velli en þá sem eru á höfuðborgarsvæðinu, velli sem þurfa á meiri tekjum að halda. Þannig á að stilla þessu dæmi upp.
Einnig þarf að huga að verðlagningu. Verðlagning þarf að vera í EUR eða USD. Vallargjald þarf að lágmarki að vera 30 EUR, helst í kringum 50 EUR annars er verið að gefa til kynna að völlurinn sé eiginlega ekki þess virði að leika.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson