Kylfukast

neikvaedur.is
Ellert og félagar eru duglegir í golfi.
Fimmtudagur 17. september 2015 kl. 10:39

neikvaedur.is

Mér barst til eyrna nýlega að það Kylfukast væri ekki að skora nein stig þar sem allt þar væri viðrað væri neikvætt fyrir golfhreyfinguna. Hér væri alltaf dregin upp mun neikvæðari mynd en efni stæðu til. Staðan í golfinu væri bara mjög góð. Það má vel vera. Kannski er ég bara hundneikvæður fúll á móti. Það verður hver að túlka Kylfukastið á sinn hátt. Hér set ég fram mínar skoðanir og vangaveltur. Hvort að aðrir séu mér sammála eður ei er allt annað mál. Ég er alltaf að vona að golfhreyfingin vakni af værum blundi og takist á við þá þróun eða breytingar sem eru að eiga sér stað. Eða eins og eitt ágætt fyrirtæki hér á landi segir: "Ekki gera ekki neitt".

Því er ekki að neita að ég hef miklar áhyggjur af því hvert golfíþróttin stefnir hér á landi. Ef þátttökutölur í mótaröðum unglinga eru skoðaðar þá er þar fækkun. Á móti kemur að unglingarnir sem keppa eru töluvert betri, þar sem kennslan og utanumhald um kennslu hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum. Þökk sé PGA menntun gokfkennara. Knattspyrna virðist algerlega bera höfuð og herðar yfir aðrar íþróttagreinar hvað ástundun barna varðar og skarar svo einnig framúr í því að hvetja stelpur til þátttöku. Golfið er eina íþróttin hér á landi fyrir utan knattspyrnu sem hefur heila sjónvarpsstöð útaf fyrir sig. Það virðist því miður ekki skila sér í aukningu iðkenda eins vænta mætti.

Golf er sú íþrótt hér á landi þar sem iðkendurnir leggja mest af mörkum til viðhalds og uppbyggingar aðstöðu. Um 90.000 krónur kostar að vera í golfklúbbi á höfuðborgarsvæðinu. Félagsmönnum innan golfklúbbanna fer fækkandi en deilt er um hvort iðkendum fari fækkandi. Sumir benda á þá staðreynd að æ fleiri kjósi að vera meðlimir í „fyrirtækjaklúbbum“ sem bjóða uppá mun ódýrari aðild en hinir hefðbundnu golfklúbbar og mun meiri fjölbreytni í vallavali.

Séu ársreikningar golfklúbbanna skoðaðir kemur í ljós að þeir eru flestir illa í stakk búnir dragist félagsgjaldatekjur þeirra saman. Félagsmenn eru að eldast og dregið hefur úr nýliðun. Eldri borgarar vilja greiða lægra gjald en þurfa að óbreyttu eftir nokkur ár að greiða mun hærra gjald.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá býður golfklúbbur aðeins uppá eina eftirsótta söluvöru. Það er aðgangurinn að golfvellinum. Rástíminn. Það hefðu allir golfklúbbar gott af því að fara í naflaskoðun á hvernig er staðið að sölu vörunnar. Er það rétt að selja mér neikvæða röflaranum árgjald á 90.000 krónur sem ég nýti til þess að spila 10 hringi á sumri, en gefa svo öllum stjórnarmönnum í öllum golfklúbbum landsins og styrktaraðilum Golfsambandsins heimild til að leika sömu velli 6 sinnum (3 x með maka) án endurgjalds? Þetta hefur þótt í góðu lagi undanfarin 20+ ár, en er það virkilega svo?

Er það rétt að ég og Elli Magna vinur minn sem spilar 150 hringi greiðum sama árgjald? Ég uni honum því vel og finnst frábært að menn stundi golfið af eljusemi. En spurningin á rétt á sér.

Er það rétt að stórfyrirtæki geti boðið starfsmönnum sínum uppá aðild að GSÍ og aðgang að golfklúbbum á mun hagkvæmara verði en golfklúbbarnir sjálfir? Væri það nokkuð hægt nema útaf því verðlagning vörunnar hjá golfklúbbunum sjálfum er í ólagi?

Það er lag fyrir golfhreyfinguna að vinna saman að því að fá mun hærri rekstrarframlög frá sveitarfélögunum. Það er aldrei neitt mál að byggja stúku við fótboltavelli því EUFA heimtar það en það hefur aldrei verið rannsakað til fulls hversu miklar fjárhæðir hin holla og góða hreyfing sem golfið er sparar í heilbrigðisþjónustunni.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson