Listin að velja í lið
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá hörðum golfáhugamönnum og dyggum lesendum kylfings.is að nýlega voru valdir leikmenn til að leika fyrir Íslands hönd á EM áhugamanna í golfi sem fram fer í júlí.
Ég hef kynnst svona vinnubrögðum af eigin raun, þá ekki vegna þess að ég hafi sjálfur verið landsliðsefni í golfi, en hinsvegar á ég eiginkonu sem varð Íslandsmeistari í golfi árið 2001. Fram að þeim tíma hafði það verið sjálfgefið að Íslandsmeistari í golfi – keppti fyrir Íslands hönd á EM einstaklinga. Hún varð hinsvegar ekki fyrir valinu það árið af þeirri einföldu ástæðu að vera ekki landsliðsþjálfaranum þóknanleg. Miklar bréfaskriftir áttu sér stað milli GR, GSÍ og landsliðsþjálfarans í kjölfarið – en ákvörðun um val var ekki breytt.
Nú tíu árum síðar – hefur lítið breyst til hins betra. Svo virðist sem að leiðin til að komast í landslið í golfi – snúist um það að vera einvaldinum þóknanlegur. Í gamla daga var þetta alltaf kallað að vera í klíkunni. Þetta er smitað í gegnum allar íþróttagreinar – golf er þar ekki sér á báti.
Því fylgir mikil ábyrgð að vera einvaldur. Að velja í sæti – sem er meiri eftirspurn eftir að komast í, en framboð er af sætum. En nafnið einvaldur felur það í sér að viðkomandi er í raun einræðisherra. Þarf ekki að fara eftir neinum skráðum reglum frekar en honum sjálfum þóknast. Kannski ein regla í dag, en önnur á morgun. Og svo kannski bara engar reglur. Allavega þrátt fyrir ítarlega leit er því ekki fyrir að fara að hægt sé að finna neinar birtar reglur um hvernig eigi að velja í landsliðið – eða hvaða árangri maður þurfi að ná til að eiga þar tryggt sæti.
Um aldamótin síðustu – voru reglur á þá leið að 4 efstu á stigalista – síðustu tveggja ára (Eimskipsmótaröðin) voru sjálfvaldir. Þjálfarinn mátti svo bæta við tveimur í 6 manna lið. Enn eldri reglur voru á þann veg að leikmenn fengu stig á stigalista líka fyrir þátttöku í mótum á erlendri grundu. Í dag eru engar reglur.
Þetta er frábært fyrir kylfing eins og mig með 3,9 í forgjöf, æfi sjaldan og helst aldrei – er aðeins of þungur, en kemst þó 18 holurnar nokkuð léttilega – þarf bara að fá einn kaldan á 19. og er þá tilbúinn í næstu 18. daginn eftir. Hef aldrei leikið á Eimskipsmótaröðinni, en átti mina spretti þegar hún hét Toyota-mótaröðin. Þannig bíð ég alltaf eftir kallinu í landsliðið, því ekki er hægt að sjá að árangur á Eimskipsmótaröðinni eða á erlendri grundu skipti neinu sérstöku máli. Það er ömurleg staðreynd fyrir þá kylfinga sem æfa golf allan ársins hring og hafa það að markmiði að ná langt í íþróttinni.
Fyrir þá sem finnst þetta vera kylfukast út í loftið – bendi ég á að ekki einu sinni fyrirliði Ryder bikars liða Evrópu eða Ameríku fær að velja alla sína leikmenn eftir eigin geðþótta. Skráðum reglum er fylgt. Fyrirliðinn fær að velja hluta liðsins – en annars er það árangurinn sem telur. Og svoleiðis ætti það alltaf að vera – einungis þannig verður friður um val. Árangurinn er óvéfengjanlegur. Og nú hefði verið frábært tækifæri að segja fyrir 54 holu mót á Eimskipsmótaröðinni á einum af okkar bestu völlum - Hvaleyrinni - sá/sú ykkar sem nær bestum árangri í mótinu á Hvaleyrinni tryggir sér sæti í EM-liðinu. Það tækifæri rann úr greipum. Synd.
Mynd: Ryder lið Evrópu. Valið er í lið eftir skráðum reglum.