Kylfukast

Kylfukast: Verðtryggð lífsgæði
Margeir Vilhjálmsson.
Fimmtudagur 2. janúar 2014 kl. 10:42

Kylfukast: Verðtryggð lífsgæði

Það virðist vera samdóma álit flestra kylfinga að árið 2013 hafi verið eitt versta golfár í manna minnum.

Það virðist vera samdóma álit flestra kylfinga að árið 2013 hafi verið eitt versta golfár í manna minnum.  Sumarið bara kom ekki.  Samdráttur var í heimsóknum á nánast alla golfvelli landsins. Aðrar fréttir voru þó verri. Í fyrsta skipti í tugi ára fækkaði skráðum iðkendum innan vébanda GSÍ milli ára.

Þessi staðreynd var forystumönnum golfhreyfingarinnar ljós þegar blásið var til Golfþings í nóvemberlok þar sem samþykkt var einróma „Stefna golfhreyfingarinnar á Íslandi 2013 – 2020“, undir fyrirsögninni „Golf er lífsgæði“.  Eitt aðalmarkmiðið að efla barna- og unglingastarf og stuðla að því að auka vægi fjölskyldunnar enn frekar innan golfíþróttarinnar.

Í byrjun desember voru haldnir aðalfundir golfklúbbanna. Þar tóku sömu aðilar sína árlegu ákvörðun um hækkun félagsgjalda um verðbólgu og rétt rúmlega það. Félagsaðild er nefnilega verðtryggð lífsgæði.

Félagsgjald í stærstu golfklúbbunum á höfuðborgarsvæðinu er um og yfir 90.000 kr. fyrir fólk á aldrinum 21 – 66 ára.  Fyrir fjögurra manna fjölskyldu , hjón með 12 ára dóttur og 16 ára son, er félagsgjaldið hjá GR alls 236.000 krónur.  Hjá GK er félagsgjaldið fyrir þessa sömu fjölskyldu 239.500 kr. Golfklúbburinn Oddur gerir ennþá betur og rukkar 275.000 krónur.  Væntanlega allt með það að leiðarljósi að auka vægi fjölskyldunnar enn frekar innan golfíþróttarinnar.

Fjörutíu félagsmenn af tæplega þrjúþúsund tóku að sér að samþykkja nýja gjaldskrá Golfklúbbs Reykjavíkur á síðasta aðalfundi.  Fyrir utan hina sjálfvirku árlegu hækkun fengu öldungar klúbbsins sérstakan glaðning til viðbótar, hækkun félagsgjalds úr 50.000 kr. í 65.000 kr.  Fyrir fótafúna bættist við golfbílagjald uppá 25.000 kr.  Fótafúinn öldungur í GR, greiðir því 90.000 kr. fyrir afnot af völlum klúbbsins næsta sumar.

Hugsa þarf út fyrir rammann þegar kemur að félagsgjöldum.  Flestir klúbbar nota sömu ríkisaðferðina.  Rukka eitt gjald fyrir aldurshópinn 21 – 66 ára.  Sé golfhreyfingunni skipt upp eftir aldri kemur í ljós að hlutfall iðkenda 30 ára og yngri er svo lágt, að fari fram sem horfir megi breyta nafni GSÍ í LEK árið 2020.  Tveir klúbbar börðust þó gegn þessari þróun með myndarbrag, Golfklúbburinn Keilir býður 16 ára og yngri frían aðgang að Sveinkotsvelli og Golfklúbbur Suðurnesja býður börnum 14 ára og yngri aðild í klúbbnum án endurgjalds.

Í fjölda ára hafa golfklúbbar landsins boðið ódýrari vallargjöld fyrir kl. 13:00 á virkum dögum.  Af hverju má ekki bjóða félagsaðild að þessum sömu klúbbum með takmarkaðri leikheimild við sama tíma.  Félagsaðild þar sem nota mætti völlinn fyrir klukkan 13:00 á virkum dögum. Utan þess tíma myndi félagsmaður með slíka aðild greiða vallargjald.

Árleg fjölgun golfiðkenda er ekki náttúrulögmál.  Fækkun kylfinga milli áranna 2012 og 2013 er áminning til hreyfingarinnar um að endurskipulagningar sé þörf.

Með bestu óskum um gleðilegt nýtt golfár og lækkandi forgjöf,

Margeir Vilhjálmsson