Kylfukast

Kylfukast: Verðlaus pappír
Föstudagur 28. ágúst 2015 kl. 07:00

Kylfukast: Verðlaus pappír

Fyrir rétt tæplega tveimur árum tilkynnti ég um framboð mitt til embættis Forseta GSÍ hér í Kylfukastinu. Framboðið olli nokkru fjaðrafoki enda ekki fordæmi fyrir þvi að menn úti í bæ væru að bjóða sig fram til slíks virðingarembættis. Góðavinasamtökin bundust tryggðaböndum til að tryggja að bátnum yrði alls ekki ruggað. Allir að passa sig og sína. Sitjandi forysta hélt með yfirburðum. 
 
Í Kylfukastinu hefur verið fjallað um mál golfhreyfingarinnar. Oft á óvæginn máta að því er sumum finnst. Því er líka þannig farið hjá GSÍ að gagnrýni er ekki sértaklega velkomin. 
 
Nú þegar tæp tvö ár eru liðin frá síðasta Golfþingi virðist sem spár um getuleysi núverandi forystu golfíþróttarinnar hafi verið allt annað en úr lausu lofti gripnar. Kylfukastið um hugmyndafræðilegt gjaldþrot GSÍ sem á síðasta ári var mest lesna greinin á kylfingur.is á betur við í dag en þá. Golf á Íslandi hefur ekki bara staðnað, heldur erum við á næstu árum að horfa uppá verulega fækkun kylfinga í golfklúbbum, versnandi rekstrarskilyrði golfklúbba og fækkun þeirra líkt og gerst hefur í nágrannalöndunum. Aukin samkeppni frá íþróttagreinum sem nutu lítilla vinsælda eða voru lítt þekktar um síðustu aldamót s.s. hjólreiðar, hlaup, fjallgöngur og crossfit taka nú toll af aldurshópi sem er afar dýrmætur fyrir golfið. 
 
Forsetinn sem kjörinn var fyrir tveimur árum hefur fullkomlega staðið undir væntingum eins og forveri sinn og gert lítið sem ekki neitt. Stefna Golfsambandsins frá 2013 - 2020 sem kynnt var með pompi og pragt á síðasta Golfþingi getur í besta falli flokkast sem verðlaus pappír.
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson