Kylfukast

Kylfukast: Useless
Fimmtudagur 2. október 2014 kl. 09:53

Kylfukast: Useless

Man ekki til þess að hafa setið jafn lengi yfir sjónvarpi yfir eina helgi og þá síðustu. Þökk sé Ryder bikarnum. Þvílík keppni og landkynning fyrir Skotland. Sat límdur við Golfstöðina. Íslensku lýsendurnir stóðu sig með miklum sóma að skila stemmningunni heim í stofu. Hafi þeir þakkir fyrir. Það eru forréttindi á lítilli eyju að hafa heila sjónvarpsstöð sem tileinkar allt efni sitt okkar góðu íþrótt.

Eitt umtalaðasta atvik keppninnar sem leikin var á Gleneagles í Skotlandi um helgina var þegar Sir Nick Faldo sagði Spánverjann Sergio Garcia hafa verið „useless“ í Ryder bikarnum árið 2008. Ummælin sem sexfaldur sigurvegari risamótanna lét falla sem lýsandi hjá bandarískri sjónvarpsstöð fóru mjög fyrir hjartað á mörgum stuðningsmönnum evrópska liðsins.  Þegar öllu er á botninn hvolft virkaði þessi sending sem hvatning fyrir Garica sem stóð sig vel. Hvað varðar 2008 þá var hann sannarlega „useless“. Það sama á einnig við um fulltrúa okkar Íslendinga í blaðamannastúku Ryder bikarsins þetta árið. Engar fréttir af keppninni hef ég enn fengið að sjá frá þeim annars mætu mönnum en bíð spenntur.

Þó ekki jafn spenntur og eftir úrslitunum í fyrsta Speedgolfmótinu sem haldið verður á Korpúlfsstaðavelli nú um helgina. Eða þannig. Ekki nóg með að annars ágætir golfþættir á RÚV hafi verið undirlagðir þessu kjaftæði, heldur þarf maður nú að lesa hér á vefsíðu allra kylfinga að verið sé að brjóta blað í golfsögu Íslands þegar fyrsta mótið af þessum ófögnuði verður haldið. Á sama hátt var væntanlega brotið blað í íslenskri golfsögu á sínum tíma þegar Hrekkjalómafélagið kúkaði í holurnar á golfvellinum í Vestmannaeyjum.

Sem félagsmanni í Golfklúbbi Reykjavíkur er mér stórlega misboðið. Klúbburinn hefur yfir að ráða 27 holum á Korpu og 18 í Grafarholti. Landinu, nýjustu lykkjunni á Korpu hefur verið lokað vegna bleytu. Umferð golfbíla er bönnuð á báðum völlum klúbbsins vegna bleytu. Á sama tíma þykir í lagi að bjóða uppá langhlaup á vellinum með golfpoka á bakinu væntanlega til að tryggja að þeir félagsmenn sem hugsanlega hefðu áhuga á að nýta sér aðstöðu klúbbins til golfleiks sem þeir greiða um 90.000 kr. fyrir á ári komist örugglega ekki að. 

Golfklúbbur Reykjavíkur og Golfsamband Íslands starfa samkvæmt reglum The Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews. Ég hef flett stafa á milli og finn ekkert um Speedgolf í reglubókinni góðu. Ef að forráðamenn GR og GSÍ flokka þennan ófögnuð undir að vinna að framgangi íþróttarinnar þá eru menn á villigötum.

Talandi um að vera „useless“.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson.