Kylfukast

Kylfukast: Tilbúnir til útflutnings undir enskum nöfnum
Miðvikudagur 7. október 2009 kl. 01:34

Kylfukast: Tilbúnir til útflutnings undir enskum nöfnum

Nú í ár gerðust Golf Iceland aðilar að IAGTO (International Association of Golf Tour Operators). Um leið var samið við IAGTO um að gera úttekt á íslenskum golfvöllum og veita ráðgjöf um hvernig byggja mætti upp ferðamannaiðnað á Íslandi í kringum golf. Þetta er allt mjög gott og gilt og verðugt verkefni fyrir íslenskt golf.

Það sem vekur þó furðu mína er fyrstu fréttir af skýrslu sem Peter (einnig kallaður Paul á kylfingi.is) Walton hjá IAGTO. Hann ferðaðist um landið í ágústmánuði og hefur komist að því að allir golfvellir sem eru meðlimir í Golf Iceland séu það sem hann kýs að kalla „export ready“. Vellirnir séu mjög góðir og miklu betri en hann hafði gert sér grein fyrir. Til að auðvelda markaðssetningu á völlunum er talið mjög mikilvægt að tekin verði upp ensk nöfn á okkar helstu völlum. Nokkur dæmi eru nefnd, s.s. að Keilisvöllurinn sem síðast þegar ég vissi hét Hvaleyrarvöllur verði kallaður Lava Links, Kiðjabergið fái nafnið White River, Strandarvöllur á Hellu fái nafnið Hella Volcano, Jaðarsvöllur á Akureyri verði nefndur Midnight Sun og Vestmannaeyjavöllur (sem ég veit í raun ekki til þess að hafi nokkuð nafn) verði kallaður Westman Island. Því skal sérstaklega haldið til haga áður en lengra er haldið að ég hef heyrt því fleygt að fyrir skýrsluna séu greiddar litlar 24.000 Evrur.
Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Ágætur maður Peter Walton kemur til Íslands. Það skal ekki dregið úr því að hér er kunnáttumaður á ferð. Hann hefur lifibrauð sitt af golfiðnaðinum og þekkir golferðamannabransann vel. En þegar maður hefur lifibrauð sitt af því að skrifa skýrslur og búa til viðskipti, þá hefði verið alveg töluvert erfitt að skrifa skýrsluna og komast að þeirri niðurstöðu að enginn völlur hér á landi væri tilbúinn til útflutnings og því óþarfi að fara skíra þá enskum nöfnum.   
Þar sem að ég skrifa Kylfukastið yfirleitt í fúlu skapi, agnúast út í allt og alla, þá er kannski „bottom line“ í þessu kast hið fornkveðna, „Vinur er sá er til vamms segir“
Hvað nafnabreytingar á völlum varðar, get ég ekki ímyndað mér að sé einfalt mál. Getur stjórn golfklúbbs ákveðið slíkt? Eða þarf aðalfundarsamþykkt til? Ég er kannski að kasta steinum úr glerhúsi hafandi ætlað að byggja völl sem átti að heita Black Sand. En ég á líka vin sem breytti nafninu sínu úr Sváfnir í Húgó. Hvað myndi gerast í Írlandi, Frakklandi, Skotlandi eða Þýskalandi ef Peter Walton myndi leggja það sama til. Segja t.d. að enginn gæti borið fram Seann Cibeal, Correncon en Vercors, Machrihanish, Club zur Vahr. Myndi hann leggja það sama til á þessum stöðum? Myndu ekki Þjóðverjar og Frakkar örugglega samþykkja að skíra sína velli enskum nöfnum? Ég veit ekki betur en að landsmenn beggja þessara þjóða séu mjög duglegir að ferðast til Íslands. Af hverju skírum við ekki vellina okkar þýskum nöfnum?
Mér þykir svo að lokum mjög leitt að segja það en ekki á nokkurn mögulegan máta get ég tekið undir það að fjórtán íslenskir 18 holu golfvellir séu tilbúnir til útflutnings (ef ég hef skilið þetta rétt, þá er um alla 18 holu velli landsins, nema Öndverðarnes að ræða). Það hefur ekkert með leikgæði vallanna að gera. Þau eru til fyrirmyndar. Útsýnið í kringum vellina er frábært, brautir, flatir, teigar – allt fullkomlega boðlegt og meira en það í flestum tilvikum. Það sem er á engan máta „export ready“ er þjónustan og aðstaðan í kringum vellina. Því miður.
Við skulum bara líta okkur nær. Við erum kannski sátt við okkar aðstöðu hérna heima við en þegar við förum til útlanda að leika golf, þá höfum við væntingar. Hverjar eru þær. Ég get ekki svarað fyrir alla, en þegar ég leik golf erlendis, þá býst ég við því að til staðar sé búningsklefi sem ég get skipt um föt, skápar þar sem ég get geymt dótið mitt og sturtuaðstaða. Góður veitingastaður eða 19. hola þar sem ég get snætt að leik loknum slakað á og helst farið aðrar 18 holur að því loknu. Það þarf að vera golfverslun þar sem ég get fengið helstu nauðsynjar og keypt eitthvað merkt klúbbnum. Leigukerrur, golfbílar og helst af öllu kaddíar. Upplifunin af aðstöðunni í kringum völlinn er engu minni en af golfvellinum sjálfum.
Þegar ég t.d. ætla að nota búningsklefann á Akureyri, þá er hann ekki til staðar. Ekki heldur í Kiðjabergi. Ef ég svo ætla að nota hann í Leirunni, þá er hann fullur af unglingavinnukrökkum sem eru að borða nestið sitt. Þegar ég svo mæti á „must play“ völlinn í Vestmannaeyjum (sem ég reyndar gerði í sumar), þá þurfti ég að deila honum með auglýsingaskiltum frá Volcano mótinu og skúringagræjum.  Það hef ég aldrei upplifað á „must play“ velli erlendis. Ég svo sem veit hvernig þetta er þegar mætt er á þessa staði, en það gerir ekki útlendingurinn sem er að koma í golf og hefur kannski byggt upp einhverjar væntingar nákvæmlega eins og þegar við ferðumst til útlanda. 
Umsögnin í kjölfarið „I couldn´t change clothes at the Midnight Sun, neither at White River. I had to strip in front of some juniors in Leira and share the dressing room with a mop and advertising signs in the Westman Islands. The courses where excellent, but the overall experience poor. Been there, done that.“ 
Það má ekki gerast. Það þarf að byrja á réttum enda. Á heimavelli. Annars verður þetta fljótlega sjálfdautt dæmi. Að því sögðu, þá hefði þessi pistill kannski verið svolítið öðruvísi ef ég hefði fengið 4 milljónir í vasann. En maður metur ekki vinskap til fjár.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson