Kylfukast: Til fyrirmyndar hjá Forsetanum
Síðastliðinn laugardag var formannafundur GSÍ haldinn á Borgarnesi. Undirritaður sat ekki fundinn enda ekki formaður í golfklúbbi eða forsvarsmaður samtaka innan golfhreyfingarinnar. Flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt að gagnaleki er í tízku og bárust Kylfukasti hinar ýmsu upplýsingar af fundinum.
Forseti Golfsambandsins, Haukur Örn Birgisson, fór á fundinum yfir greiningu á svokölluðum „fyrirtækjagolfklúbbum“ og Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss, flutti erindi um sama mál. Þetta málefni er í alla staði vert skoðunar. Félögum í golfklúbbum fækkar nú annað árið í röð. Þótt fækkunin sé ekki mikil í prósentum talið sýnir tölfræði GSÍ fram á að 10.000 kylfingar hafi hætt í golfklúbbum á undanförnum árum en engar vísbendingar eru um að þeir aðilar hafi endilega hætt golfiðkun.
Mjög áhugaverðri spurningu er kastað fram í greiningunni: „Geta kylfingar fengið ódýrari og auðveldari aðgang að golfvöllum án þess að vera í hefðbundnum golfklúbbi?“ Með hefðbundnum golfklúbbi er átt við golfklúbb sem er aðili innan GSÍ og á heimavöll s.s. GR, GO, GKG, GK, GS o.s.frv. Greiningin sýnir fram á að svo sé sannarlega. Starfsmenn fjölmargra stórfyrirtækja hér á landi eiga mjög greiðan aðgang að fjölda golfvalla á mjög lágu verði.
Ónefndur golfklúbbur stórfyrirtækis býður uppá félagsaðild fyrir 17.000 krónur. Innifalið í því gjaldi er aðild að GSÍ gegnum golfklúbb á landsbyggðinni. Félagsmenn klúbbsins mega leika að hámarki 5 hringi gegn 1.000 kr. gjaldi á Leirdalsvelli, Mýrinni(Garðabæ), Hvaleyri, Sveinskotsvelli(Hafnarfirði), Hlíðavelli(Mosó), Garðavelli(Akranes), Kiðjabergi, Öndverðarnesi, Hamarsvelli (Borgarnes) og Jaðarsvelli (Akureyri). Alls 50 hringi fyrir 50.000 krónur. Til viðbótar þessu býðst félagsmönnum að leika að hámarki 5 hringi frítt í Hveragerði, Leirunni, Vatnsleysuströnd, Selfossi, Grindavík, Stykkishólmi og í Grundarfirði. Alls 35 hringi án endurgjalds. Enn bætist við því félagsmenn í þessum klúbbi fá að leika eins marga hringi og þeir vilja á Strandarvelli á Hellu.
Fyrir mér er enginn vafi á því að þetta er langbesti golfklúbbur landsins. Félagsmaður í þessum golfklúbbi getur fyrir 17.000 krónur leikið golf á mörgum af bestu völlum landsins allt sumarið. Vilji hann aðeins meira krydd getur hann fyrir 10.000 krónur leikið 5 hringi á Hvaleyri og 5 á Leirdalsvelli. Fullt vallargjald á Hvaleyrarvelli er 6.500 krónur og 8.600 krónur á Leirdalsvelli.
Þetta er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum þar sem stórfyrirtæki gera einstaklega vel við starfsfólk sitt með mjög ódýrum aðgangi að golfvöllum landsins.
Þegar ég ber saman þau gæði sem þessi ónefndi fyrirtækjaklúbbur býður og ber saman við minn klúbb, GR, slær mig strax 17.000 kr. á móti 89.000 kr. Mismunurinn dugar langleiðina fyrir golfferðinni til útlanda og ég get samt leikið ótakmarkað golf hér heima, þar af 30 hringi í innan við 30 mínútna aksturstíma frá heimili mínu. Það kostar að vísu nokkra þúsundkalla í viðbót, en hver er að telja einn og einn þúsundkall yfir sumarið.
Greiningin er góð byrjun og hana ætti að taka lengra. Gera stóra skoðanakönnun meðal núverandi og fyrrverandi félagsmanna innan Golfsambandsins.
Vel gert GSÍ. Vel gert Forseti. Ég er farinn að skrifa starfsumsókn til ónefnds fyrirtækis.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson.