Kylfukast: Stóra holan
Hvar verður golfíþróttin stödd eftir 10 ár? Þessi spurning tróð sér eiginlega framan í mig eftir að ég hafði horft á áhugavert myndband þar sem farið er yfir ófarir golfsins í Bandaríkjunum og hvað megi gera til að bregðast við gríðarlegri fækkun iðkenda þar í landi og víðar. Þeir segja að þar í landi sé einum golfvelli lokað á 48 stunda fresti.
Eins og oft í Bandríkjunum er umræðan dregin áfram af hagsmunaaðilum eins og forstjóra Taylor Made. Minnkandi sala í búnaði er mönnum þar á bæ vitanlega áhyggjuefni. Frekar en að staldra við og spyrja sig hvort það sé ekki að bera í bakkafullan lækinn að allir kylfuframleiðendur komi með nýjar týpur af kylfum einu sinni á ári, þá er framtíð golfsins falin í því að stækka holuna. Ekki bara um helming – heldur svona tífalt. Af hverju? Því íþróttin er alltof erfið fyrir nútímamanninn. Golf er of tímafrekt, of dýrt og ekki nógu skemmtilegt. Það hefur verið minnst á þetta nokkrum sinnum áður. Að þeirra mati er stóra holan svarið.
Það hefur hver sitt sjónarhorn eftir því hvaða hagsmunir eru undir. Í Bandaríkjunum snýst golf eins og allt annað að miklu leyti um viðskipti. Sölu á landi, sölu á öðru heimili á svæðum eins og í Flórída. Sölu á búnaði og svo mætti lengi telja.
En hvernig er þessi sviðsmynd hér heima á Íslandi? Ég hitti um daginn góðan mann sem starfar innan golfhreyfingarinnar. Hans sjónarmið var það að stóru klúbbarnir GR, GK, GKG og GO væru að skemma golfið á Íslandi með því að halda niðri árgjöldunum.
Ef rétt væri haldið á spilunum og árgjöld í þessum golfklúbbum hefðu hækkuð skv. vísitölu frá 2006 þá ættu þau að vera um 120.000 á ári. Þau væru hinsvegar bara um 90.000 kr. Þetta væri þess valdandi að litlu klúbbarnir gætu ekki rukkað nógu há árgjöld. Við vorum sammála að spjalli okkar loknu að golfhreyfingin talaði ekki nóg saman um mörg mál sem á henni brenna. Eini vettvangurinn af viti eins og er væri formannafundur GSÍ og hann væri aðeins haldinn annað hvert ár.
Ég hef haldið skjal utan um þróun árgjalda hjá Golfklúbbi Reykjavíkur frá árinu 1998. Hið rétta í málinu er að hefðu árgjöld stærsta klúbbs landsins haldið í við vísitölu, hefði fullt árgjald hjá GR á árinu 2014 átt að vera 97.000 kr., en ekki 88.000. Kaupmáttur hjá félagsmönnum GR alveg eins og hjá öðrum Íslendingum er talsvert lakari en hann var árið 2006 og því má gera því skóna að árgjöldin séu síst léttari á buddu félagsmanna nú en þau voru árið 2006. Árgjöld eldri kylfinga hafa hækkað mun meira. Eftir stendur spurning sem ég spurði fyrst fyrir ríflega 10 árum síðan. Af hverju eru klúbbar sem eru með 2-500 félagsmenn og reka 18 holu golfvöll að rukka lægri árgjöld en stóru klúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu? Af hverju eru golfklúbbar úti á landi að láta golfklúbba sem eru yfirfullir af félagsmönnum setja einhver viðmið um hvað megi rukka í árgjald? Af hverju er ekki tekinn saman áætlaður rekstrarkostnaður komandi árs, honum deilt niður á áætlaðan fjölda félagsmanna og fengin út tala sem eigi að vera árgjaldið? Það má færa fyrir því sterk rök að gæði þess að vera í golfklúbbi með 300 félagsmenn og 18 holu golfvöll séu töluvert meiri gæði en að vera í 3.000 manna golfklúbbi sem býður uppá þrjá 18 holu golfvelli. Árgjald í Golfklúbb Grindavíkur mætti því að vera hærra en hjá GR.
Félagsmönnum í golfklúbbum á Íslandi fækkar nú annað árið í röð. Fækkunin er ekki mikil, en ætti samt að hringja bjöllum. Nóg til þess að taka hugmyndafræði golfhreyfingarinnar allrar í endurskoðun.
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og þar sem stutt er í aðalfundi golfklúbbanna vil ég benda lesendum Kylfukasts á pistil sem ég ritaði fyrir réttum 6 árum. Því miður hefur ekkert þokast í áttina en ég held í vonina.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson