Kylfukast

Kylfukast: Smiður hengir bakara
Mánudagur 12. október 2015 kl. 14:07

Kylfukast: Smiður hengir bakara

Það eru gleðistundir fyrir golfara þegar októbermánuður býður uppá hlýjar helgar. Það er hrein viðbót við golftímabilið okkar sem því miður virðist alltaf vera of stutt.
Þetta sumar var þó með þeim betri sem kylfingar landsins hafa fengið að njóta á síðustu árum.
Stórfréttir golftímabilsins koma þó ekki af golfvellinum, heldur úr Laugardalnum. Framkvæmdastjóri Golfsambandsins til 16 ára sagði óvænt upp störfum í lok septembermánaðar.
Í fréttaflutningi af málinu á visir.is kemur fram að heimildir séu fyrir því að „..aðilar í einstökum golfklúbbum hafi kallað á breytingar hjá sambandinu“. Í sömu frétt er haft eftir framkvæmdastjóranum fráfarandi : „Örugglega verða einhverjir fegnir að ég sé að fara. Sumir hafa skrifað á móti mér alla tíð. Það eru frekar einstaklingar en klúbbarnir sem vilja fara aðrar leiðir.“

Þrátt fyrir að segjast skilja í sátt getur hálflæs maður strax séð að svo er greinilega ekki. Hvernig getur mögulega staðið á því í næst stærsta sérsambandi landsins að „aðilar í einstökum klúbbum“ kalli eftir breytingum sem verða til þess að framkvæmdastjóri segi upp störfum? Það er nú einu sinni þannig að stjórn GSÍ ræður framkvæmdastjóra. Ef "aðilar í einstökum klúbbum" geta svo stjórnað því hvort framkvæmdastjórinn situr eða ekki, þá er nokkuð ljóst að kjörnir stjórnarmenn Golfsambandsins eru ekki stýra sambandinu, heldur eru það „aðilar í einstökum klúbbum“.

Hvað varðar orð framkvæmdastjórans um að „sumir hafi skrifað á móti honum alla tíð“ er ekki annað hægt en að íhuga hvort þar sé verið að vísa til Kylfukasts, því það er svo vitað sé til eini greinabálkurinn um golf sem haldið hefur verið úti frá árinu 2008 sem gagnrýnt hefur golfhreyfinguna. Oft harðlega.

En ef framkvæmdastjórinn fráfarandi lítur svo á að skrif í Kylfukasti hafi sérstaklega beinst gegn honum persónulega á leiðréttist það hér með. Það er hinsvegar skoðun Kylfukastsins hvort sem að hún er rétt eða röng að enginn ætti að sitja í forsvari lengur en í 8 ár, hvort sem um er að ræða íþróttafélag, sveitarfélag eða annað.

Verkefni framkvæmdastjóra er að framfylgja stefnu stjórnar. Stjórninni eru lagðar línur á Golfþingi. Ef að stefna hreyfingarinnar er einkastefna framkvæmdastjórans - þá segir það allt sem segja þarf um stjórnirnar sem hann hefur starfað fyrir.

Íþróttapólitíkin er hörð. Það styttist í næsta þing. Á því síðasta fékk forsetinn mótframboð. Gæti verið að til að tryggja stöðu sína hafi smiðurinn sjálfur hengt bakarann?

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson