Kylfukast: Pistla Greining Agnars
Það getur verið hættulegt að kasta kylfum á golfvellinum. Sumir leikmenn eiga það til að taka því sem svo að verið sé að reyna henda kylfunni í þá. Ég þekki þekki þrjú slík tilfelli af eigin raun á 30 ára golfferli. Tvisvar sinnum var um óviljaverk að ræða, en einu sinni um hreint viljaverk að ræða. Þá voru kappsfullir tvíburar við keppni á gamla Korpúlfsstaðavellinum. Engir eftirmálar urðu af því að þeir létu keppnisskapið hlaupa með sig í gönur.
Þegar fræðimenn leggjast í greiningu á Kylfuköstum getur margt furðulegt komið upp. Framkvæmdastjóri golfkennarasamtakanna á Íslandi tók að sér greiningarhlutverk á síðasta Kylfukasti sem kallað var „Markaðsstjórarnir“.
Einhverjir félagsmanna samtakanna virðast hafa móðgast við skrif mín - eða þá að þeir hafa einfaldlega ekki skilið inntakið. Því skal ég greina eigin skrif.
1. Stelpugolfdagur er gott framtak en takmarkast því miður við nærsvæði vettvangsins sem hann fer fram á. Ef það er á annað borð haldinn Stelpugolfdagur - af hverju eru þá ekki uppákomur á fleiri stöðum en einum? Annars er þetta eins og í þessu tilviki bara stelpugolfdagur GKG og nágrennis. Framtakið er annars mjög gott.
2. Leitt að ekki sé til strákagolfdagur því það vantar ekki bara fleiri stelpur í golf heldur líka stráka.
3. Það er fækkun í golfinu - hún er því miður öll meðal yngri iðkenda.
4. Ættu markaðsstjórar klúbbanna að beita sér meira að iðkendum en ekki bara að fyrirtækjum?
Og svo það sem mestu máli skiptir og stendur orðrétt í síðasta Kylfukasti:
4. Átak verður aldrei meira en skammtímalausn. Finna þarf farveg þar sem endurnýjun og nýliðun í golfíþróttinni er regluleg og krakkar, bæði strákar og stelpur velji íþróttina sem sína aðalíþrótt til ástundunar.
Þess hefði ég helst óskað að framkvæmdastjóri golfkennarasamtakanna hefði tekið undir þau orð mín heldur en að firrast við móðgaður. Takist golfhreyfingunni að finna farveginn - þá ætti að myndast næg atvinna fyrir þá fjölmörgu aðila sem útskrifast hafa úr íslenska golfkennaraskólanum.
Reyndin er hinsvegar önnur. Einungis örfáir aðilar geta haft af því fulla sómasamlega atvinnu að kenna golf. Örfáir einstaklingar fá tækifæri til að blómstra í stéttinni. T.d. þarf næst stærsti klúbbur landsins, þar sem framkvæmdastjóri golfkennarasamtakanna er líka framkvæmdastjóri að hafa sömu tvo einstaklingana í vinnu við golfkennslu og Golfsambandið notar við landsliðsþjálfun, þrátt fyrir mikið framboð á öflugum golfkennurum.
Með greiningar- og golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson