Kylfukast

Kylfukast: Ófært vegna hitabylgju
Föstudagur 24. október 2014 kl. 08:18

Kylfukast: Ófært vegna hitabylgju

Nokkrir dagar af samfelldri blíðu í októbermánuði voru himnasending fyrir golfþyrsta á höfuðborgarsvæðinu. Vinnufundir sem boðaðir voru víða áttu það sameiginlegt að fara fram á golfvellinum. Annað var ekki tækt enda golfáhugamenn langt frá því að vera saddir eftir veðurfarsleg vonbrigði sumarsins.  Því miður komst ég ekki á völlinn en gladdist mjög þegar þegar tímaritið Golf á Íslandi kom inn um lúguna.

Í Forsetapistli boðar Forseti Golfsambandsins þá breytingu sem hann vill umfram aðrar sjá á íslenskum golfvöllum á næsta ári. Brottfall kvennateigsins. Kvennateigurinn eða nánar tiltekið hugtakið um kvennateiginn hefur í gegnum tíðina verið að gera íslensku golfi ómældan óleik. Í ofanálag eru fremstu teigarnir svo merktir með rauðum lit. Til að viðhalda sannri karlmennsku eru golfklúbbar landsins hvattir til að breyta teigmerkjum sínum fyrir næsta sumar.  Þessi tillaga er svo sem ekkert alveg galin en gengur í berhögg við grein 2.4 í biblíunni um EGA forgjafarkerfið. Fá golfsambönd í heiminum hafa til þessa stundað jafn mikla bókstafstrú og það íslenska á þessa biblíu. Í greininni segir m.a.: Hafa skal a.m.k. gula og rauða teiga á völlum. Sá guli skal vera lengri en sá rauði. Ekki skal meta lengri velli en 5.800 metra fyrir konur.

Spurður út i golfsumarið lýsir formaður Golfklúbbs Húsavíkur yfir áhyggjum vegna áhugaleysis barna og unglinga á íþróttinni. Golf eigi mjög undir högg að sækja í samkeppni við knattspyrnu. Ég deili áhyggjum með formanni Golfklúbbs Húsavíkur. Ekki bara vegna barna og unglinga. Líka vegna fullorðinna. Golf á í alvöru samkeppni við íþróttir sem nutu ekki vinsælda að neinu marki um síðustu aldamót.  Hlaup, fjallgöngur og síðast en ekki síst hjólreiðar. Allt greinar sem eru blessunarlega lausar við rástíma og slór við leik. Maður fer bara þegar mann langar og er eins lengi og maður vill.  Engin félagsgjöld, engar fjöldatakmarkanir í ráshópum.

Þrátt fyrir mikilvægi þess að losna við kvennateigana tekur Forseti GSÍ það skýrt fram í opnuviðtali að stærsta verkefni GSÍ sé að halda í þá kylfinga sem nú þegar eru til staðar. Golfhreyfingin þurfi að búa sig undir það að jafnvel verði fækkun í röðum GSÍ.  Til að mæta þeirri áskorun þarf að golfhreyfingin að líta á sig sem eina heild og verkefnið næstu misserin að GSÍ og golfklúbbarnir bæti samskipti sín. Af því tilefni fór stjórn GSÍ í fundaherferð um landið. Því miður var ekki hægt að komast á Austuland á þessu ári vegna veðurs.

Spurður út í golfsumarið lýsir formaður Golfklúbbs Byggðarholts á Eskifirði (GBE) sumrinu fyrir austan sem einstöku.

Mín tillaga fyrir næsta golftímabil er sú að golfklúbbar láti það eiga sig að breyta teigmerkjum á völlum sínum. Legg jafnframt til að allir kylfingar sem þjáðir eru af karlrembu brjóti odd af oflæti sínu og prófi að leika einn hring af rauðum teigum. Það er gaman.  Á mínum velli í Grafarholti tapa karlmenn 5 forgjafarhöggum með því að færa sig af gulum á rauða. Ég veit ekki um neina fljótlegri leið til að lækka um 5 í forgjöf. Hvort að menn nái svo að halda þessari skjótfengnu lækkun er annað mál.

Hvet svo kylfinga til að spila a.m.k einn golfvöll á Austurlandi næsta sumar. Ekki láta 25 stiga sumarhita stoppa ykkur.

Góða skemmtun.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson