Kylfukast: Íslandsmeistari út í kuldanum
Hvaleyrarvöllur er að mínu mati mesti heimavöllur landsins. Engir kunna betur að spila hann en Keilismenn. Það er eins og þeir séu með völlinn í blóðinu. Þegar kemur að því að keppa á Hvaleyrinni, þá er alltaf hægt að ganga að því vísu að einhver Keilismaður stígi upp og brilleri. Um þetta eru mýmörg dæmi í gegnum tíðina og ég hef enga trú á því að þetta muni breytast í framtíðinni, því hún er björt og margir efnilegir Keilismenn að leika á unglingamótaröðinni.
Við fáum nú í næstu viku að njóta þess fágæta viðburðar að fá A-landsliðs verkefni hingað til lands. Hvaleyrin varð fyrir valinu enda hefur völlurinn verið frábær undanfarin ár.
Undankeppni Evrópumóts landsliða, ef svo má kalla mótið, hefur fengið litla athygli fyrir utan það að valið á íslenska landsliðinu hefur þótt í meira lagi umdeilt. Svo umdeilt að stjórn Golfklúbbsins Keilis óskaði skýringa frá landsliðsþjálfara um hvernig stæði á því að Íslandsmeistarinn frá árinu 2011, Axel Bóasson, kæmist ekki í lið þegar leikið væri á hans heimavelli.
Ég skrifaði Kylfukast fyrir rétt rúmu ári, undir heitinu „Listin að velja í lið“ sem má finna hér. Þar fjallaði ég um það hversu mikilvægt það væri að fara eftir skráðum reglum þegar valið er í lið, þar sem margir eru um hituna. Síðan þá hefur GSÍ hefur gefið út Afreksstefnu og einnig Reglur um afrekshóp og landslið GSÍ.
Skriflegar reglur GSÍ segja greinilega þegar valið er í 6 manna landslið skuli eftirfarandi gilda:
1. Velja skal tvo efstu áhugamenn á stigalista Eimskipsmótraðarinnar. (Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson)
2. Velja skal tvo efstu Íslendingana á heimslista áhugamanna. (Ólafur Loftsson og Kristján Þór Einarsson)
Nánar um val skv. stigalistum segir svo:
Séu sömu kylfingar á báðum listum skal fyrst horfa til þess kylfings sem er í þriðja sæti á heimslista áhugamanna við fyrsta lausa sæti, þá þriðja sætis á stigalista GSÍ í þau fjögur sæti sem þessi regla tekur til.
3. Landsliðsþjálfari velur svo í tvö síðustu sætin og hefur þar til hliðsjónar
a. áhuga og vilja kylfings til að verða betri og markmið hans samrýmist markmiðum afreksstefnunnar
b. hæfileika, getu, aga, skipulags- og samskiptahæfni
c. árangur í mótum hérlendis og erlendis í aðdraganda móts eða verkefnis.
Landsliðsþjálfara er því frjálst að haga vali sínu á 5. og 6. leikmanni liðisins, eins og honum einum þóknast. Eða þannig túlkar hann það allavega og hefur fullan rétt til þess. Jafnvel þótt að í þriðja sæti á báðum stigalistum séu Keilismenn, hljóta þeir ekki náð fyrir augum hans. Á heimslista áhugamanna er það Axel Bóasson og á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar er það Rúnar Arnórsson. Því hefði verið alveg fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati hafa tvo Keilismenn í þessu sex manna landsliði. Það hefði án nokkurs vafa verið sterkt að hafa tvo „heimamenn“ í liðinu.
Ég get ekki ímyndað mér annað en mat á skipulags- og samskiptahæfni kylfings sé nokkuð flókið ferli. Líkast til eingöngu kennt hjá PGA. Skil samt í raunninni ekki upp né niður í því hvað slíkt kemur vali í landslið í golfi við. Hvað varðar hæfileika, getu og aga - á ég bágt með að sjá að nokkur maður geti verið í afrekshópi án þess að uppfylla slík grundvallarskilyrði. Get því ekki gert annað en sett spurningamerki við reglurnar og spyr mig að því, hver skrifaði eiginlega reglurnar um valið? Kannski landsliðsþjálfarinn sjálfur? Það er kannski í góðu lagi. Athyglivert er þó að Reglur um afrekshópa og landslið GSÍ gera miklar kröfur til kylfinga - en þar eru engar kröfur gerðar til landsliðsþjálfara aðrar en þær að hann sé PGA menntaður. Hvað svo sem það þýðir.
Ég get ekki að því gert, en mér finnast svör landsliðsþjálfara við því af hverju Axel Bóasson var ekki valinn í landsliðið á heimavelli frekar ódýr. Hann segir í viðtali á Kylfingur.is nánast beinum orðum að Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnús séu óreyndir „nýliðar“ og því hafi þurft velja reynslumeiri menn með þeim. Andri Þór og Haraldur Franklín hafa mikla keppnisreynslu af mótum erlendis í gegnum WJGS mótaröðina og nánast hlægilegt að kalla þá „nýliða“, þrátt fyrir ungan aldur. Báðir hafa sigrað á Eimskipsmótaröðinni og eru frábærir kylfingar. Það er stór ákvörðun að horfa framhjá Íslandsmeistara í golfi, þegar hann er á heimavelli og er þriðji efsti Íslendingurinn á heimslista áhugamanna - sama hvað mönnum finnst um núverandi leikform. Ef það er ekki reynsla, þá veit ég ekki hvað.
Fyrir 20 árum var haldið Norðurlandamót í Grafarholti. Íslandsmeistarinn sem þá einnig var í Golfklúbbnum Keili var að sjálfsögðu valinn í liðið. Hann endaði uppi sem Norðurlandameistari. Ég velti því fyrir mér hvað hefði verið sagt árið 1992 ef Íslandsmeistarinn hefði verið látinn sitja hjá þegar landsliðið lék í Grafarholtinu.
Það er list að velja í lið.
Með golfkveðju og bestu óskum um gott gengi landsliðsins á Hvaleyrinni,
Margeir Vilhjálmsson
Mynd: Íslandsmeistarinn í höggleik 2011, Axel Bóasson